Contino Rioja Reserva 2019

Vín ársins hjá mér í fyrra var Contino Rioja Reserva 2017. Viñedos del Contino var stofnað árið 1973 og ræður yfir 62 hektörum af vínekrum. Víngerð þarna á sér langa sögu og hellarnir á landareign Contino eru frá 16. öld og með þeim elstu í Rioja. Þrúgur hverrar vínekru eru gerjaðar og unnar hver fyrir sig og lokablöndun gerð að því loknu. Alls eru 7 vín framleidd undir merkjum Contino – 5 rauð, 1 hvítt og 1 rósavín.

Vínið sem hér um ræðir er gert úr þrúgunum Tempranillo, Graciano og Carignan (Mazuelo).  Að lokinni gerjun var það sett á tunnur úr franskri og amerískri eik þar sem það var geymt í 18 mánuði.

Contino Rioja Reserva 2019 er dökkrúbínrautt á lit og hefur góða dýpt. Í nefinu finnur maður fjólur, jarðarber, tóbak, kirsuber, brómber, svartar plómur, vanillu, dökkt súkkulaði og milda eik. Vínið er þurrt, hefur góða fyllingu, ágæta sýru og góð tannín. Eftirbragðið heldur sér vel og lengi, og þar má finna plómur, sólber, tóbak, kirsuber, súkkulaði og eik. 95 stig. Frábær kaup (4.799 kr). Fer með með lambasteik, grilluðu nautakjöti, pylsum, hörðum ostum og dökku súkkulaði, en ræður líka vel við villibráð á borð við gæs og rjúpu.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (98 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling gefur því 97 stig, Tim Atkin 93 stig, Wine Spectator gefur 92 stig og Robert Parker gefur því 93 stig.

Contino Rioja Reserva 2019
Frábær kaup
Contino Rioja Reserva 2019 er frábært vín sem fer með með lambasteik, grilluðu nautakjöti, pylsum, hörðum ostum og dökku súkkulaði.
5
95 stig

Vinir á Facebook