La Rioja Alta Masterclass

Nýlega komu til landsins fulltrúar La Rioja Alta víngerðarinnar og af því tilefni var efnt til La Rioja Alta Masterclass á Hotel Parliament. Ég var svo heppinn að fá boð á þennan frábæra viðburð og tækifæri til að kynnast þeim frábæru vínum sem koma frá La Rioja Alta.

Bodega La Rioja Alta er með eldri vínhúsum Rioja. Saga þess hófst árið 1890 þegar fimm fjölskyldur frá Rioja og Baskalandi tóku sig saman og stofnuðu vínhúsið Sociedad Vinícola de La Rioja Alta. Með tímanum styttist svo nafnið í La Rioja Alta. Upphaflega var víngerðin aðeins í Rioja, en undanfarna áratugi hefur starfsemin aukist og nær nú einnig til Ribera del Duero og Rias Baixas.

Þeir Stéphane Desmarquest og Fernado Goy frá La Rioja Alta kynntu fyrirtækið og þau vínhús sem La Rioja Alta á nú og rekur – Torre de Oña, Lagar Ð Cervera og áster. Þá fengum við að prófa 8 vín frá þessum vínhúsum.

Ribera del Duero

Vínhúsið áster (já – það er skrifað með litlu „á“) var stofnað 1989 og er staðsett í Ribera del Duero. Vínekrurnar ná yfir 88 hektara og liggja í 800 metra hæð yfir sjávarmáli. Vínin eru gerð úr Tinta del País, eins og Tempranillo-þrúgan kallas í Ribera del Duero, og þau eru látin þroskast í frönskum eikartunnum (dæmigert fyrir Ribera del Duero).

áster Ribera del Duero Crianza 2019 er látið þroskast í 16 mánuði á frönskum eikartunnum – 75% nýjar tunnur og afgangurinn í notuðum tunnum – og svo 1 ár á flösku. Vínið er dökkrautt á lit, unglegt og með góða dýpt. Í nefinu er leður, kirsuber, pipar, vanilla, plómur, kakó og mild eik. Í munni eru þétt tannín, góð sýra og góð fylling. Leður, vanilla, svört kirsuber, balsam og espressó í góðu eftirbragðinu. 92 stig. Mjög góð kaup (4.199 kr – ath að nú er 2020-árgangurinn í vínbúðunum, sem er sennilega enn betri).

Finca El Otero 2016 hefur einnig fengið 16 mánuði í eikartunnum (allt nýjar, franskar tunnur). Vínið er dökkrautt og djúpt, með vanillu, ristað brauð, kókos og sólber. Mjúk tannín og góð fylling. Sólber, kirsuber og kaffitónar í þéttu eftirbragðinu. 93 stig. Góð kaup (5.999 kr).

Rías Baixas

Næst var komið að Lagar Ð Cervera, en það vínhús er staðsett í Rías Baixas á norðvestur horni Spánar. Þar er þrúgar Albariño alls ráðandi, en þó má finna nokkrar aðrar hvítar þrúgur og örlítið er gert af rauðvínum. Lagar Ð Cervera 2022 er 100% Albariño, ávaxtaríkt með steinefni, sítrónubörk, epli og perur. Það er örlítil selta í eftirbragðinu og smá smjör. 91 stig.

Rioja

Þá færðum við okkur yfir til Rioja, í vínhúsið Torra de Oña sem hefur verið í eigu La Rioja Alta frá 1995. Þar eru gerð tvö rauðvín – Finca San Martin og Finca Martelo.

Finca San Martin 2019 er hreint Tempranillo-vín, sem hefur að hluta þroskast í nýjum amerískum eikartunnum (60%) og að hluta í notuðum frönskum eikartunnum (40%). Alls dvaldi vínið 16 mánuði í tunnum. Vínið hefur dökkrauðan lit og angan af svörtum kirsuberjum, plómum, súkkulaði og það er líka smá kjötlykt af því. Við þetta bætast leður, vanilla og tóbak sem eru meira áberandi í eftirbragðinu. Vínið er selt sem Crianza en gæti vel verið Reserva miðað við þroskann. 90 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr).

Finca Martelo 2016 er 95% Tempranillo, en inniheldur einnig smávegis Mazuelo, Garnacha og Viura. Það var látið þroskast í 24 mánuði á amerískum (80%) og frönskum (20%) eikartunnum. Í nefinu er þéttur ilmur af leðri, kirsuberjum, vanillu, eik, súkkulaði, tóbaki, sólberjum, balsamic og svörtum pipar. Vínið er þurrt, með góða sýru og ríflega miðlungs tannín, sem eru þétt og flauelsmjúk. Eftirbragðið er langt og þétt, með leður, kirsuber, vanillu, eik, súkkulaði, tóbak, sólber, kókos, balsamic og svartan pipar. 95 stig. Mjög góð kaup (5.399 kr).

Flaggskipin

Þá var loks komið að aðalvínunum frá vínhúsi La Rioja Alta. Þar skipta árgangarnir miklu máli, því vínin eru aðeins gerð í góðum árgöngum, bestu vínin jafnvel bara 2-3 sinnum á hverjum áratug! Tvö af vínunum voru frá 2015, sem er einn besti árgangur L Rioja Alta í 30 ár, og þeir gerðu öll sín vín þetta árið.

Viña Ardanza 2016 er gert úr Tempranillo (80%) og Garnacha (20%). Það er að jafnaði gert á hverjum 6-7 árum af hverjum 10, því ef uppskeran er ekki nógu góð þá fara þrúgurnar í önnur vín. Vínið var látið liggja í notuðumamerískum eikartunnum – Tempranillo í 36 mánuði og Garnacha í 30 mánuði, og eftir átöppun var vínið látið liggja á flösku í 3 ár áður en það fór í sölu. Vínið er dökk-rúbínrautt á lit, með góða dýpt og ágætan þroska. Í nefinu er leður, tóbak, sultuð kirsuber, skógarbotn og smá krydd. Í munni eru þroskuð tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur, ásamt einkennum amerísku eikarinnar – tóbaki, leðri, kakó og kókos. 94 stig. Frábær kaup (5.199 kr).

Viña Arana Gran Reserva 2015 er gert úr þrúgunum Tempranillo (95%) og Graciano (5%). Það var látið liggja 3 ár í notuðum amerískum eikartunnum og önnur 3 ár á flösku. Vínið er að jafnaði gert 5-6 sinnum á hverjum áratug. Vínið var lengst af gert sem Reserva, en frá 2014 er það Gran Reserva. Vínið er djúprautt á lit, með flókinn ilm af rauðum kirsuberjum, plómum, sólberjum, bláberjum, kaffi, karamellum, sedrusvið, vanillu og balsam. Mjúk tannín, góð sýra og gott jafnvægi. Eftirbragðið er langt og heldur sér vel. Þetta vín á nóg eftir og ætti að eldast vel næstu 10 árin. 94 stig. Góð kaup (6.499 kr).

Gran Reserva 904 „Seleccion Especial“ 2015 er gert úr Tempranillo (90%) og Graciano (10%). Þetta vín er að jafnaði aðeins gert 4-5 sinnum á hverjum áratug. Það var geymt í 4 ár í amerískum eikartunnum og fór á flöskur í febrúar 2020. Í nefinu finnur maður rauð ber, plómur, tóbak, karamellu, kaffi og sedrusvið. Í munni er vínið silkimjúkt en með góða sýru, flottan ávöxt og óð mjög góðu jafnvægi. Eftirbragðið er þétt, heldur sér vel og lengi og þar má finna kakó, leður, tóbak og vanillu. 94 stig.

Námskeiðið var mjög vel heppnað og gestir almennt mjög ánægðir. Ég þakka Mekka fyrir fyrir að bjóða mér á þetta fræðandi Masterclass.

Vinir á Facebook