Gérard Bertrand Change Grenache Rosé 2021

Ég hef fjallað nokkuð oft um Gerard Bertrand og vínin hans, og hér er komið að enn einu víninu frá Bertrand. Fyrirtæki Bertrands hefur vaxið hratt undanfarin ár og velgengnin virðist enga enda ætla að taka. Bertrand hefur ávallt verið mjög metnaðarfullur og má segja að allur hans ferill einkennist af metnaði. Á sínum yngri árum lék hann rugby við góðan orðstír og komst í franska landsliðið í rugby. Hann lagði takkaskóna á hilluna 29 ára gamall, fyrir tæpum 30 árum, og einbeitti sér þá að víngerð. Faðir Bertrands var vínkaupmaður og keypti Château de Villemajou á 8. áratug síðustu aldar. Hann vildi bæta vínin í Languedoc og lyfta á hærri stall. Það skapaði honum víst litlar vinsældir hjá öðrum vínframleiðendum í héraðinu sem voru sáttir við að búa til einföld og ódýr vín í sem mestu magni.

Sem ungur drengur hjálpaði Gérard til á vínekrunum og í víngerðinni. Þar öðlaðist hann sína fyrstu reynslu í víngerð og þegar hann tók við fjölskyldufyrirtækinu hélt hann áfram þeirri vinnu sem faðir hans hóf. Georges faðir hans lést í bílslysi þegar Gérard var 22 ára og hann tók þá við stjórnartaumunum og sinnti því starfi samhliða rugby-ferlinum. Þegar hann sneri sér svo að fullu að vínhúsinu fóru hjólin að snúast. Gérard fór að kaupa vínhús, flest þeirra gamalgróin sem máttu muna fífil sinn fegurri, og hóf þau aftur til vegs og virðingar. Í dag eru 17 vínhús í eigu Gérard Bertrand og vínekrurnar ná yfir tæplega 900 hektara.

Vín dagsins

Gérard fór snemma að beita biodynamiskum aðferðum í víngerðinni og lífrænni ræktun. Nafn vínsins sem hér er fjallað um vísar einmitt í þær breytingar, en þrúgurnar koma af vínekrum þar sem ræktuninni hefur breytt yfir í lífræna. Hér er á ferðinni rósavín úr Grenache Noir-þrúgunni, en ég hef því miður ekki fundið frekari upplýsingar um framleiðsluferlið. Því miður sýnist mér að þetta vín sé dottið úr sölu í vínbúðunum.

Gérard Bertrand Change Grenache Rosé 2021 er föl-laxableikt á lit, með blómlegri angan af jarðarberjum, hindberjum, kirsuberjum, rifsberjum og sítrónum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru og ágætt eftirbragð, þar sem finna má jarðarber, hindber, kirsuber og rifsber. 87 stig. Ágæt kaup (2.599 kr). Fer vel með ljósu fuglakjöti, geitaosti, fiskmeti og grænmetisréttum.

Þorri Hringsson í Víngarðinum gaf þessu víni 4 stjörnur, en mér tókst ekki að finna aðrar umsagnir um það. Þá eru einkunnir á Vivino of fáar til að það fái meðaleinkunn.

Gérard Bertrand Change Grenache Rosé 2021
Ágæt kaup
Gérard Bertrand Change Grenache Rosé 2021 fer vel með ljósu fuglakjöti, geitaosti, fiskmeti og grænmetisréttum
3.5
87 stig

Vinir á Facebook