Willm Pinot Noir Alsace Rosé 2021

Áfram heldur rósavínsveislan og nú höldum við aftur til Frakklands, nánar tiltekið til Alsace. Saga Willm-vínhússins hófst árið 1896. Adolph Willm rak þá vinsælan veitingastað – Willm Escargot – sem, líkt og nafnið bendir til, var einkum þekktur fyrir snigla. Sniglarnir munu hafa verið soðnir upp úr víni sem Willm-fjölskyldan bjó til á vínekru sinni. Adolph Willm vildi efla vínræktina og reka hana samhliða veitingastaðnum. Vínhúsið Willm var því formlega stofnað árið 1896, en fljótlega urðu vínin æ fyrirferðarmeiri og Adolph sneri sér því alfarið að víngerðinni.

Í Alsace eru að langmestu leyti gerð hvítvín og freyðivín. Eitthvað er framleitt af rauðvínum, sem eru öll úr Pinot Noir, sem eru almennt mun léttari en vín frá nágrannahéraðinu Bourgogne. Vínhús Willm leggur auðvitað mesta áherslu á hvítvínin sín, sem eru 15 talsins. Sætvínin eru 2, rauðvínin 2, freyðivínin 5 en Willm gerir aðeins eitt rósavín, sem er einmitt til umfjöllunar hér.

Vín dagsins

Rósavínið frá Willm er hluti af s.k. Reserve-línu, sem eru í raun grunnvínin frá Willm. Líkt og öll rósavín frá Alsace þá er vínið gert úr Pinot Noir (100%). Þrúgurnar eru handtíndar af vínviðnum, kramdar og safinn fékk að liggja í 36 klukkustundir á hýðinu til að taka í sig smá lit. Safinn var svo gerjaður við lágt hitastig (eins og almennt er gert við rósavín) og að lokinni gerjun var vínið geymt í stáltönkum í nokkra mánuði fyrir átöppun.

Willm Pinot Noir Alsace Rosé 2021 er ljós-laxableikt á lit, með þægilegan ilm af hindberjum, jarðarberjum, sítrónum, rifsberjum og hvítum pipar. Í munni er vínið þurrt, með miðlungs sýru en lítið fer fyrir tannínum. Vínið er í góðu jafnvægi og í eftirbragðinu er góður keimur af hindberjum, jarðarberjum, sítrónum, rifsberjum og hvítum pipar. 88 stig. Góð kaup (2.999 kr). Fer vel með laxi (jafnvel reyktum eða gröfnum), geitaosti, ljósu fuglakjöti, sushi og salati, en er líka fyrirtaks fordrykkur.

Það finnast fáir dómar um þennan árgang, en meðaleinkunn vínsins á Vivino eru 3,7 stjörnur (of fáar umsagnir til að þessi árgangur fái einkunn). Þorri Hringsson í Víngarðinum gaf þessu víni 4 stjörnur og segir mjög góð kaup í því.

Willm Pinot Noir Alsace Rosé 2021
Góð kaup
Willm Pinot Noir Alsace Rosé 2021 fer vel með laxi (jafnvel reyktum eða gröfnum), geitaosti, ljósu fuglakjöti, sushi og salati.
4
88 stig

Vinir á Facebook