Viña Ardanza Rioja Reserva 2012

Víngerð í „gamla heiminum“, þ.e. í Evrópu, hefur löngum verið íhaldssöm og reglugerðarfarganið um víngerð í t.d. Frakklandi, Ítalíu og á Spáni er umfangsmikið. Skýrar (en stundum flóknar) reglur gilda um framleiðsluferlið og þessu þurfa víngerðarmenn að fylgja svo að hægt sé að kenna vínin við upprunahéraðið (það er líka mesti gæðastimpillinn). Reglurnar hafa ekki alltaf fylgt samfélagsþróun og kröfum neytenda á hverjum tíma. Frumkvöðlar í víngerð hafa því í raun þvingað kerfið til aðlögunar með því að fara óhefðbundnar slóðir í víngerð sinni. Útkoman hefur þá orðið nýtt gæðavín sem samkvæmt gildandi reglum hefðu flokkast sem „borðvín“, sem er lægsti gæðaflokkurinn, en gæða vínanna hins vegar slík að þau hafa kallað á breytingar á reglunum. Þekktustu dæmin um þetta eru líklega „súper-Toscana“ vínin á borð við Tignanello og Sassicaia. Þá vilja neytendur í dag síður kaupa vín sem þarf að geyma lengi áður en þau sýna sínar bestu hliðar. Mörg vínhús hafa því einnig aðlagast kröfum markaðarins og stefna að því að vínin séu aðgengileg og tilbúin til neyslu um leið og þau koma í sölu. Vínhús La Rioja Alta er ekki í þeim hópi.

Vínhús La Rioja Alta tilheyrir frekar hópi vínhúsa sem halda fast í hefðirnar og láta sín vín jafnvel liggja lengur á tunnum og flöskum áður en þau fara í sölu. Þá eru gæðakröfur vínhúsanna jafnan strangari en gengur og gerist, og ef árgangurinn uppfyllir ekki gæðakröfurnar þá er því frekar sleppt að senda frá sér vín sem ekki uppfyllir þær væntingar sem gerðar eru til þeirra. Vínin eru þá seld undir öðru nafni og þrúgurnar sem áttu að fara í bestu vínin í staðinn notaðar í „minni“ vín frá þessum vínhúsum. Í þessum hópi eru t.d. Marques de Murrieta og Lopez de Heredia. Vín ársins í fyrra, Castillo Ygay Gran Reserva Especial 2010 frá Marques de Murrieta er aðeins búið til þegar árgangurinn er nægilega góður, og sama má segja um t.d Gran Reserva frá ViñaTondonia.

Vín dagsins

Eins og áður segir leggur vínhús La Rioja Alta miklar kröfur á gæði. Þannig þótti 2011-árgangurinn ekki vera nægilega góður þar á bæ og því kom enginn 2011-árgangur af Viña Ardanza Reserva. Sömu sögu er að segja af 2003, 2003 og 2006, sem þóttu ekki nægilega góðir. Þegar árgangurinn þykir sérstaklega góður er hann skilgreindur sem Selección Especial og það átti t.d. við um 2010-árganginn. Þrúgan Garnacha er mikilvægur hluti Viña Ardanza Reserva. Þó að 2011 hafi svo sem ekki verið svo afspyrnuslæmur í Rioja þá var það ekki nógu gott hvað varðar Garnacha og þess vegna kom enginn 2011-árgangur af Viña Ardanza Reserva.

Viña Ardanza Rioja Reserva 2012 er rúbínrautt á lit, með góða dýpt og ágætan þroska. Í nefinu finnur maður leður, tóbak, sultuð kirsuber, skógarbotn og smá krydd. Í munni eru þroskuð tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur – frábært jafnvægi. Vínið er flauelsmjúkt í munni, með þægilegt leður, tóbak og rauð ber í ljúfu eftirbragðinu. 94 stig. Frábær kaup (4.750 kr). Þetta vín steinlá með nautasteikinni og smellpassar eflaust með villibráð og lambi, en myndi líka fara vel með grilluðu fuglakjöti. Tilbúið núna en mun eldast vel næstu 5-8 árin.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4.3 stjörnur (5.893 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gaf 2009 og 2010 báðum 5 stjörnur og ég verð hissa ef þessi árgangur fær ekki jafn margar stjörnur hjá honum. Steingrímur í Vinoteki gefur 5 stjörnur. Robert Parker gefur víninu 94 stig og Wine Spectator gefur því 91 stig.

Viña Ardanza Rioja Reserva 2012
Frábær kaup
Viña Ardanza Rioja Reserva 2012 steinliggur með nauti, lambi, villibráð og jafnvel grilluðu fuglakjöti. Frábært vín!
5
94 stig

Vinir á Facebook