Champagne Laherte Freres Les Grandes Crayeres Blanc de Blancs Millésime 2015

Það er orðið ansi langt síðan ég skrifaði síðast hér á Vínsíðuna, en það þýðir ekki að ég hafi hætt að smakka ný og áhugaverð vín. Ég er hins vegar að renna út á tíma að koma þessum færslum frá mér á árinu, því það eru bara dagar eftir af þessu ári, og því þurfa einhverjar færslurnar líklega að bíða betri tíma. Ég var að renna yfir færslur ársins og skoða virkni mína á Vivino og sýnist að ég hafi náð að smakka 170 mismunandi vín á árinu. Því miður eru víndómarnir hér á Vínsíðunni ekki nema 63…

Alls smakkaði ég 17 freyði- og kampavín, 28 hvítvín, 2 rósavín, 121 rauðvín og 2 púrtvín. Sum vínin voru það óspennandi að það stendur ekki til að skrifa neitt um þau hér á Vínsíðunni – 4 fengu 3 stjörnur hjá mér og 20 fengu 3,5 stjörnur. Um helmingurinn af vínunum er svo ekki í almennri sölu hérlendis – sum aðeins seld á veitingastöðum, önnur hef ég eða aðrir vínáhugamenn flutt inn á eigin vegum.

Ég ætla að reyna að koma inn nokkrum víndómum fyrir áramótin svo að vínin komi til greina við val á víni ársins hér á Vínsíðunni.

Áramótakampavínið ?

Það hefur varla farið framhjá neinum íslenskum vínáhugamanni að það opnuðu tvær „íslenskar“ vínbúðir á netinu á þessu ári – Sante og Nýja vínbúðin. Ég hef ekki verslað í Nýju Vínbúðinni og aðeins einu sinni verslað hjá Sante, en hef hins vegar smakkað nokkur vín þaðan og öll hafa þau vakið lukku. Eitt af þeim vínum sem ég keypti hjá Sante er árgangskampavín frá Champagne Laherte. Hér er á ferðinni Blanc de Blancs kampavín, sem þýðir að það er gert úr 100% Chardonnay. Extra-Brut þýðir að viðbættur sykur í gerjunarferlinu er mjög lítill, eða um 4 g/L. Þá held ég að þessi árgangur sé sá fyrsti í þessari nýju blöndu frá Champagne Laherte.

Champagne Laherte Freres Les Grandes Crayeres Blanc de Blancs Millésime 2015 er fallega fölgult í glasi með fínlegum búbblum. Í nefinu er fínlegur sítrusilmur, græn epli og vottur af eik. Í munni freyðir vínið fínlega, hefur snarpa sýru og þéttan ávöxt, með eplum, brioche og ögn af möndlum. 94 stig. Mjög góð kaup (7.000 kr) og líklega ein bestu kampavínskaupin á Íslandi í dag.

Robert Parker gefur þessu víni 95 stig og notendur Vivino gefa því 4,2 stjörnur (40 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Champagne Laherte Freres Les Grandes Crayeres Blanc de Blancs Millésime 2015
Mjög góð kaup
Champagne Laherte Freres Les Grandes Crayeres Blanc de Blancs Millésime 2015 eru líklega bestu kampavínskaupin á Íslandi í dag.
5
94 stig

Vinir á Facebook