Vín ársins hjá Wine Spectator

Það fylgir því alltaf ákveðin spenna hjá vínáhugamönnum að fylgjast með niðurtalningunni að víni ársins hjá Wine Spectator. Valið er jafnan tilkynnt um miðjan nóvember og þessa viku hefur niðurtalningin verið í gangi. Valið á víni ársins hefur oft komið mér á óvart og jafnan hafa mér þótt önnur vín hafa skarað fram úr. Við val á víni ársins er horft á gæði (einkunn), verð, framleitt magn og svo hinn óskilgreinda X-þátt. Það sem virðist skipta einna mestu máli í valinu er hinn óræði X-þáttur, þ.e.a.s. segja þetta „eitthvað“ við vínið sem gerir það að verkum að það skari fram úr.

Vín ársins hefur oft reynst íslenskum vínhugamönnum erfitt að nálgast. Í fyrra varð þó fyrir valinu vín frá framleiðanda sem hefur íslenskan umboðsmann og ég var svo heppinn að komast yfir nokkrar flöskur af víni ársins 2020. Þá á ég líka Dow’s 2011 árgangspúrtvín, sem var vín ársins 2014. Reyndar er víst hægt að komast yfir Sassicaia hérlendis, en 2015-árgangurinn var vín ársins 2018. Önnur vín ársins sem hafa fengist hér (ekki alltaf sami árgangur) eru t.d. Cune Imperial Gran Reserva 2004 (vín ársins 2013), Columbia Crest Cabernet Sauvignon Columbia Valley Reserve 2005 (2009), E. Guigal Châteauneuf-du-Pape 1999 (2002), Solaia 1997 (2000) og Beringer Chardonnay Napa Valley Private Reserve 1994 (vín ársins 1996).

Topp 10-listi ársins 2021

  1. Dominus Estate Napa Valley 2018 (97 stig, $269, 4.000 kassar)- vín ársins 2021
  2. Château Pichon Longueville Lalande Pauillac 2018 (98 stig, $198, 13.000 kassar)
  3. Heitz Cabernet Sauvignon Oakville Martha’s Vineyard 2016 (95 stig, $250, 2.500 kassar)
  4. Merum Priorati Priorat Desti 2018 (95 stig, $49, 14.000 kassar)
  5. Le Chiuse Brunello di Montalcino 2016 (98 stig, $99, 15.000 kassar)
  6. Louis Latour Corton-Charlemagne 2018 (95 stig, $200, 2.702 kassar)
  7. Château Léoville Poyferré St.-Julien 2018 (97 stig, $104, 15.000 kassar)
  8. Cavallotto Barolo Bricco Boschis 2016 (95 stig, $90, 3.100 kassar)
  9. Salvestrin Cabernet Sauvignon St. Helena Dr. Crane Vineyard 2018 (95 stig, $80, 1.260 kassar)
  10. Château de Nalys Châteauneuf-du-Pape 2018 (95 stig, $105, 1.000 kassar)

Við lestur á röksemdafærslunni við valinu á víni ársins virðist þetta einkum vera lofsöngur til snillingsins Christian Moueix, víngerðarmeistara hjá Dominus Estate. Það er líklega X-þátturinn við valið, en svo þarf líka að hugsa til þess að nánast annað hvert ár er vín ársins frá Bandaríkjunum.

Vinir á Facebook