G.D. Vajra Dolcetto d’Alba 2019

Vínhús G.D. Vajra er eitt af mínum uppáhaldsvínhúsum í Piemonte. Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að prófa þó nokkur vín frá Vajra – Langhe Nebbiolo, Barbera d’Alba og Barolo, svo nokkur séu nefnd. Vín dagsins er hins vegar gert úr þrúgu sem ég hef ekki haft mikil kynni af hingað til. Þrúgan Dolcetto hefur að mestu verið bundin við Piemonte, en á seinni árum hefur hún einnig náð fótfestu í Ástralíu og Bandaríkjunum.

Dolcetto þýðir „lítið og sætt“ (getur reyndar líka þýtt „að meðhöndla“) og vísar til þess að þrúgurnar innihalda tiltölulega litla sýru. Vínin eru samt alls ekki sæt heldur þurr, en þar sem þau skortir sýruna þá eru þau ekki gerð til langrar geymslu og njóta sín bestu á fyrstu 3-4 árunum. Þessi þrúga hefur verið nokkurs konar „fátæki frændi“ þrúganna Nebbiolo og Barbera, sem eru aðalþrúgurnar í Piemonte. Dolcetto er hins vegar nokkuð auðveld í ræktun og hefur þess vegna notið sín á svæðum þar sem hinar þrúgurnar hafa átt erfitt uppdráttar. Þannig þrífst hún ágætlega á kaldari vínekrum hærra uppi við fjöllin, en kaldara loftslag gerir þrúgunni kleift að halda í þá litlu sýru sem hún býr til. Dolcetto þroskast líka yfirleitt nokkrum vikum á undan Nebbiolo og Barbera.

Í Piemonte eru nokkur svæði þar sem Dolcetto er í aðalhlutverki og sum þeirra – Dogliano, Diano d’Alba og Ovada – hafa náð DOCG flokkun, sem er hæsta gæðastigið á Ítalíu. Þá er Dolcetto víða með eigin DOC-stöðu í sumum héruðum Piemonte, s.s. Alba, Aqui og Asti.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr 100% Dolcetto. Að lokinni gerjun er það látið þroskast í stáltönkum fyrir átöppun.

G.D. Vajra Dolcetto d’Alba 2019 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, leður, lakkrís, vanillu, bláber og blóðberg. Í munni eru miðlungstannín og miðlungssýra með þokkalegum ávexti. Hindber, bláber og lyng ásamt smá möndlum í þægilegu eftirbragðinu. 87 stig. Létt og þægilegt vín sem fer vel með pastaréttum, pizzum, ljósu fuglakjöti og grænmetisréttum. Ágæt kaup (3.190 kr).

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (480 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur 88 stig og Robert Parker gefur 89 stig.

G.D. Vajra Dolcetto d’Alba 2019
G.D. Vajra Dolcetto d'Alba 2019 er létt og þægilegt vín sem fer vel með pastaréttum, pizzum, ljósu fuglakjöti og grænmetisréttum.
3.5
87 stig

Vinir á Facebook