La Vieille Ferme Ventoux 2019

Ventoux er nokkuð stórt vínræktarsvæði sem tilheyrir suðurhluta Rónardalsins. Það liggur í suðausturhluta Rónardals, aðlægt Provence. Fram til ársins 2009 var héraðið kallað Côtes de Ventoux en nú heitir það bara Ventoux. Vínin frá Ventoux eru mjög svipuð Côtes du Rhône og eru flest gerð úr GSM-blöndunni – Grenache, Syrah og Mourvèdre. Einnig er algengt að finna dálítið af Cinsault og Carignan í þessum vínum. Langstærsti hluti vína frá Ventoux eru rauðvín og rósavín, en eitthvað er líka gert af hvítvínum. Vínin eru almennt léttari og ávaxtaríkari en önnur vín frá Rónarsvæðinu, og þau eru ekki ætluð til langrar geymslu.

Vínrækt í Ventoux á sér langa sögu sem nær a.m.k. aftur til tíma Rómaveldis. Lengi vel þóttu þau vera afbragðsvín og voru á borðum páfa og konunga, en á síðustu öldum hafa þau heldur fallið í skuggan af nágrönnum sínum í Rónardalnum.

Perrin-fjölskyldan er í hópi stærstu vínhúsa í Rónardalnum. Fjölskyldan á m.a. Chateau de Beaucastel og svo Miraval, sem er samstarfsverkefni Perrin, Brad Pitt og Angelinu Jolie, en til þess samstarfs var stofnað á meðan allt lék í lyndi hjá þeim hjónum. Samstarfið hefur þó gengið vel þrátt fyrir sundurlyndi Brad og Angelinu, og í fyrra sendu þau frá sér kampavín undir merkjum Miraval.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Grenache, Carignan, Cinsault og Syrah. Grenache er yfirleitt um 50% en hlutfall hinna þrúganna getur verið breytilegt milli ára. Árlega eru framleiddar um 4 milljónir flaskna af þessu víni.

La Vieille Ferme Ventoux 2019 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður bláber, plómur, leður og myntu. Í munni eru miðlungstannsín, ágæt sýra og ágæt fylling. Kirsuber, plómur, bláber, leður og lyng í ágætu eftirbragðinu sem heldur sér þokkalega. Þetta er prýðilegt hversdagsvín sem fer vel með léttari mat eins og pylsum hvers konar, pizzu, ostum og léttum grillmat, eða bara eitt og sér. 87 stig. Mjög góð kaup (2.390 kr). Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessum árgangi 3,5 stjörnur (1.837 umsagnir þegar þetta er skrifað) og það er einnig meðaleinkunn allra árganga þessa víns. Wine Spectator hefur að jafnaði gefið fyrri árgöngum 86-87 stig, líkt og Robert Parker, en það eru þó engar nýjar umsagnir um þetta vín á þeim bæ.

La Vieille Ferme Ventoux 2019
La Vieille Ferme Ventoux 2019 er prýðilegt hversdagsvín sem fer vel með ýmsum léttari mat eða bara eitt og sér.
4
87 stig

Vinir á Facebook