Montes Chardonnay Reserva 2019

Vínin frá Montes hafa lengi glatt íslenska vínáhugamenn og skyldi engan undra. Oftast er um að ræða gæðavín á góðu verði og stóru vínin þeirra eru líka alveg frábær. Ég hef oft fjallað um vínin þeirra hér á síðunni og mér telst til að þetta sé fimmtugasta færslan þar sem vínin frá Montes koma við sögu. Ég var líka svo heppinn að komast á Masterclass með Aurelio Montes þegar hann var staddur hér á landi árið 2012.

Þegar þetta er skrifað er hægt að nálgast 19 mismunandi vín frá Montes í vínbúðunum. Vínin tilheyra mismunandi vörulínum – Classic, Outer Limits, Limited Selection, Alpha og svo topplínan (M og Purple Angel). Í Classic-línunni (Reserva) eru 4 vín – 2 hvít og 2 rauð – og vín dagsins tilheyrir einmitt þeirri línu.

Vín dagsins

Þrátt fyrir að það séu eflaust um 20 ár síðan ég smakkaði fyrst vín frá Montes og tæp 15 ár síðan ég skrifaði fyrst um Montes, þá hef ég aldrei áður skrifað um þetta tiltekna vín. Vínið tilheyrir Classic-línunni, sem einnig kallast Reserva. Hér er á ferðinni hreint Chardonnay frá Curicó, Maule og Colchague sem öll eru í Valle Centrale í Chile. Um 30% vínsins var sett á nýjar tunnur úr franskri eik í 6 mánuði, en hin 70% voru látin liggja í stáltönkum á meðan.

Montes Chardonnay Reserva 2019 er strágult á lit og unglegt. Í nefinu finnur maður sítrónur, ananas, ferskjur, perubrjóstsykur og vott af þroskuðu mangó. Í munni er frískleg sýra og ágæt fylling. Sítrónur, greipaldin, epli, ananas og perur í þægilegu eftirbragðinu. Fer vel með fiskréttum, salati, sushi og hvítmygluostum. 87 stig. Mjög góð kaup (2.199 kr). Sýnishorn frá innflyjanda.

Notendur Vivino gefa þessu vín 3.5 stjörnur (509 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator hefur verið að gefa þessu víni 85-88 stig undanfarin ár, þar af fékk 2018-árgangurinn 88 stig. James Suckling gaf 2018-árgangnum 91 stig.

Montes Chardonnay Reserva 2019
Montes Chardonnay Reserva 2019 er létt og þægilegt vín sem fer vel með fiskréttum, salati, sushi og hvítmygluostum.
4
87 stig

Vinir á Facebook