Yellow Tail Moscato

Ég fjallaði nýlega um vínhús Yellow Tail og Casella fjölskylduna og það er hægt að lesa hér. Vínin frá [Yellow Tail] eru hönnuð til að vera aðgengileg og renna ljúflega niður. Óhætt er að segja að vínið sem hér er fjallað um uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þess. Hér er ekki um að ræða árgangsvín, heldur er markmiðið að vínið sé eins frá ári til árs og að neytendur geti gengið að sömu gæðum vísum.

[Yellow Tail] Moscato er fölgult á lit með örlítið grænni slikju. Í nefinu finnur maður frísklegan keim af sætum melónum, ananas, vínberjum, perum og ástaraldinum. Í munni er vínið hálfsætt, með frísklega sýru og örlitla kolsýru. Perur, ananas, melónur og smá kiwi í þægilegu eftirbragðinu. Vínið fer eflaust vel með aðeins sterkkrydduðum mat, einkum austurlenskum, en líka eitt og sér í glasi á góðum sumardegi. Fínt í kokteilboð og móttökur hvers konar. Áfengismagnið er ekki nema 7,5% og verðið eftir því – 1.498 kr. 85 stig. Ágæt kaup. – Sýnishorn frá innflytjanda.

Wine Spectator hefur gefið þessu víni 84-87 stig undanfarin ár (síðast 84 stig árið 2018). Notendur Vivino eru frekar hrifnir af víninu og gefa því 3.9 stjörnur (7030 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Yellow Tail Moscato
Yellow Tail Moscato fer vel með austurlenskum mat, en líka eitt og sér í glasi á góðum sumardegi. Fínt í kokteilboð og móttökur hvers konar.
3.5
85 stig

Vinir á Facebook