Yellow Tail Pinot Grigio 2019

Þó að vínhúsið [Yellow Tail] sé staðsett í Ástralíu, nánar tiltekið í smábænum Yenda í Nýja Suður-Wales, þá rekur það ættir sínar til Sikileyjar. Um miðja síðustu öld fluttu hjónin Filippo og Maria Casella frá Sikiley til Ástralíu og hófu þar vínrækt undir eigin nafni – Casella. Fyrsti árgangurinn leit svo dagsins ljós á því herrans ári 1971.

Fyrirtækið stækkaði hægt og rólega en þáttaskil urðu í rekstrinum þegar sonur þeirra, John Casella, tók við stjórnartaumunum árið 1995. John áttaði sig á að það væri bæði þörf og eftirspurn eftir vínum sem væru í senn aðgengileg og um leið stöðug í bragði, verði og að gæðum – [yellow tail] varð til árið 1998. Ég hef þó ekki fundið skýringu á því hvers vegna nafnið er haft í hornklofum…

Fyrsta sendingin fór til Bandaríkjanna árið 2001 og markmiðið var að selja 25.000 kassa fyrsta árið. Viðtökurnar fóru þó fram úr björtustu vonum og á fyrsta árinu seldust um ein milljón kassa. Salan jókst stöðugt og árið 2003 var hún komin í 5 milljónir kassa. Áfram hélt vöxturinn og árið 2006 var tekin í notkun framleiðslulína sem getur afkastað 36.000 flöskum á klukkustund!

Árið 2014 keypti Casella-fjölskyldan vínhús Peter Lehmann og hefur síðan bætt enn frekar í safnið. Í dag eru 8 vínhús í eigu Casella-fjölskyldunnar.

Í dag fást 7 vín frá [yellow tail] í vínbúðunum – 2 hvít, 1 rósa og 4 rauð.

Vín dagsins

Yellow Tail Pinot Grigio 2019

Yellow Tail Pinot Grigio 2019 er fölgult, unglegt og ekki með mikla dýpt. Í nefinu finnur maður rauð epli, perur, milda sítrustóna og vott af suðrænum ávöxtum. Í munni er vínið frísklegt með miðlungsfyllingu og ágætan ávöxt. Rauð epli, perur og ástaraldin í þægilegu eftirbragðinu. Góð kaup (1.999) kr. 87 stig. Fer vel með austurlenskum mat (indverskt?), pastaréttum, salati, léttari fiskréttum eða sem fordrykkur á meðan kvöldmaturinn er á grillinu. Sé þetta alveg fyrir mér á pallinum í sumar. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessum árgangi 3.6 stjörnur (612 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Yellow Tail Pinot Grigio 2019
Yellow Tail Pinot Grigio 2019 fer vel með austurlenskum mat (indverskt?), pastaréttum, salati, léttari fiskréttum eða sem fordrykkur á meðan kvöldmaturinn er á grillinu. Sé þetta alveg fyrir mér á pallinum í sumar.
4
87 stig

Vinir á Facebook