Chateau Ste Michelle Cabernet Sauvignon 50 years 2016

Vínin frá Chateau Ste. Michelle hafa löngum verið í uppáhaldi hjá mér. Mér sýnist líka að það séu yfir 20 ár síðan ég skrifaði fyrst um vínin þeirra. Ég hef hins vegar ekki verið nógu duglegur að prófa vínin þeirra undanfarin ár, að undanskildu hinu skemmtilega Kung Fu Girl, sem er eitt að mínum uppáhaldsvínum. Það var því óvænt ánægja að sjá nýtt vín frá Chateau Ste. Michelle í vínbúðunum. Ég hef þó ekki náð að finna miklar upplýsingar um þetta vín, en mér skilst að það hafi verið búið til í tilefni af 50 ára afmæli Ste. Michelle vintners, sem voru forverar Chateau Ste. Michelle, sem varð til árið 1976.

Vín dagsins

Vín dagsins er að mestu leyti gert úr Cabernet Sauvignon (87%), en auk þess er að finna í því Merlot, Syrah, Malbec, Cabernet Franc og Petit Verdot. Vínið var látið liggja i u.þ.b. 14 mánuði á amerískum og frönskum eikartunnum (að hluta til nýjar tunnur).

Chateau Ste Michelle Cabernet Sauvignon 50 years 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu eru sultuð sólber, leður, vanilla og tóbak. Í munni eru góð tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Sólber, dökkt súkkulaði, leður, vanilla og eik í góðu eftirbragðinu. 90 stig. Mjög góð kaup (2.990 kr). Fer vel með nauti, lambi, pottréttum og léttari villibráð.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.9 stjörnur (709 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Chateau Ste Michelle Cabernet Sauvignon 50 years 2016
Chateau Ste Michelle Cabernet Sauvignon 50 years 2016 er ljómandi gott vín sem fer vel með nauti, lambi og léttari villibráð. Mjög góð kaup.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook