Montes Merlot Reserva 2018

Eins og ég sagði í síðasta pistli þá hafa vínin frá Montes lengi glatt íslenska vínáhugamenn. Vín dagsins hef ég náð að smakka nokkrum sinnum en mér sýnist að það séu orðin 4 ár frá því ég smakkaði það síðast. Það er því auðvitað orðið tímabært að endurnýja kynnin við þetta ágæta vín.

Vín dagsins kemur frá Colchagua-svæðinu í Valle Centrale í Chile. Hér er á ferðinni blanda af 85% Merlot og 15% Carmenere. Að lokinni gerjun var tæplega helmingurinn settur í franskar eikartunnur í 8 mánuði, en restin fékk að hvíla í stáltönkum.

Montes Merlot Reserva 2018 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður bláber, leður, anís og ferskar kryddjurtir. Í munni eru miðlungstannín, góð sýra og ágætur ávöxtur. Skógarber, leður, dökkt súkkulaði og kryddjurtir í ágætu eftirbragðinu. 88 stig. Mjög góð kaup (2.259). Fer vel með fuglakjöti, léttari kjötréttum og grillmat. Endist líklega í 3-4 ár til viðbótar.

Wine Spectator gefur þessu víni 89 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3.5 stjörnur (577 umsagnir þegar þetta er skrifað.

Montes Merlot Reserva 2018
Montes Merlot Reserva 2018 er létt og þægilegt rauðvín sem fer vel með fuglakjöti, léttari kjötréttum og grillmat.
4
88 stig

Vinir á Facebook