Billecart-Salmon Champagne Brut Reserve

Í fyrstu færslu þessa árs fjallaði ég um kampavín frá Billecart-Salmon og hét því að gefa kampavínum meira pláss á Vínsíðunni á þessu ári. Það fór nefnilega frekar lítið fyrir þeim í fyrra þrátt fyrir að ég hafi náð að smakka nokkur góð kampavín á síðasta ári. Það er stefna þessa árs að gera þessum eðalvínum góð skil á árinu og sömuleiðis öðrum góðum freyðivínum á borð við Cava, Crémant og jafnvel Prosecco.

Kampavín og önnur freyðivín eru að mínu mati einstaklega matarvæn vín og njóta sín með nánast hverju sem er, auk þess að standa sig vel ein og sér. Kampavín frá Billecart-Salmon munu, að mér skilst, hafa verið fáanleg í vínbúðunum hér áður fyrr (fyrir hrun) en hurfu svo úr búðunum í nokkur ár. Það er því gleðiefni að þau séu aftur fáanleg hérlendis, þó það sé aðeins það kampavín sem hér er fjallað um, sem er nú komið í hillur vínbúðanna.

Vín dagsins

Vín dagsins kom í vínbúðirnar undir lok síðasta árs. Það er gert úr Pinot Noir (30%), Chardonnay (30%) og Pinot Meunier (40%). Vínið gerjast í stáltönkum og liggur á gerinu (e. lees) í 30 mánuði. Það er kannski ekki rétt orðað hjá mér að segja að það liggi á gerinu, en áhugasamir geta lesið þessa grein á Wine Folly og áttað sig betur á hvað ég á við.

Billecart-Salmon Champagne Brut Reserve NV er fallega strágult á lit með fínlegum loftbólum. Í nefinu finnur maður epli, greipaldin, ger, möndlur, brauð og steinefni. Í munni er vínið þurrt, með fína sýru og góða fyllingu. Langt og gott eftirbragð með eplum, brauði og sítrusávöxtum. Mjög góð kaup (6.999 kr). Nýtur sín auðvitað vel eitt og sér en fer líka vel með alls konar smáréttum, ljósu fuglakjöti, fiskréttum, skelfiski og humri. 92 stig. Vínið er ekki ætlað til langrar geymslu og ætti að drekka næstu 2-3 árin.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4.2 stjörnur (20.248 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gefur 4,5 stjörnur. Wine Spectator gefur 91 stig og Robert Parker gefur 90 stig.

Billecart-Salmon Champagne Brut Reserve
Billecart-Salmon Champagne Brut Reserve er frábært kampavín sem nýtur sín vel eitt og sér en fer vel með alls konar smáréttum, fiski, humri og skelfiski.
5
92 stig.

Vinir á Facebook