Monterustico Rosso 2017

Vínhús G.D. Vajra í Piemonte hefur löngum verið í nokkru uppáhaldi hjá mér, allt frá því ég kynntist hinu ljúffenga Barolo Albe þegar ég bjó í Svíþjóð. Sá ágæti Barolo er því miður ekki enn kominn í vínbúðirnar en þar hafa verið fáanleg önnur gæðavín frá Vajra og á viðráðanlegra verði. Nú er einnig hægt að nálgast önnur vín úr nokkurs konar hliðarverkefni G.D. Vajra. Eitt þeirra er vín dagins, sem er skemmtileg blanda úr helstu rauðvínsþrúgum Piemonte – Nebbiolo, Barbera og Dolcetto.

Það fer því miður lítið fyrir upplýsingum um þetta vín á netinu og á það er ekki minnst á heimasíðu G.D. Vajra.

Vín dagsins

Eins og áður segir er þetta vín nokkuð jöfn blanda þrúganna Nebbiolo, Barbera og Dolcetto. Ég hef engar upplýsingar um hvernig þær eru meðhöndlaðar eða um geymsluferlið að lokinni gerjun.

Monterustico Rosso 2017 er kirsuberjarautt á lit með byrjandi þroska og miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, hindber, fjólur, vanillu og kryddjurtir. Í munni eru mjúk tannín, ágæt sýra og góður ávöxtur. Kirsuber, hindber, plómur og ögn af kakó í þægilegu eftirbragðinu. Gott hversdagsvín sem fer vel með ljósu fuglakjöti, ostum, svínakjöti og pasta. Góð kaup (2.790 kr). 88 stig. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.7 stjörnur (104 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gefur víninu 4 stjörnur.

Monterustico Rosso 2017
Monterustico Rosso 2017 er gott hversdagsvín sem fer vel með ljósu fuglakjöti, ostum, svínakjöti og pasta.
4
88 stig

Vinir á Facebook