Loveblock Sauvignon Blanc Marlborough 2020

Sauvignon Blanc er án efa þekktasta þrúgan á Nýja-Sjálandi og Marlborough þekktasta héraðið. Þaðan koma um 2/3 hlutar alls víns sem framleitt er á Nýja-Sjálandi og Sauvignon Blanc er um 80% af framleiðslunni í Marlborough. Marlborough er staðsett norðarlega á syðri eyju Nýja Sjálands, og líkt og flest vínhéruð eyjunnar er það í austurhlíðum nýsjálensku alpanna sem liggja eftir endilangri eyjunni.

Vínhúsið Loveblock er til þess að gera ung víngerð, stofnuð 2004 af Kim og Ericu Crawford. Kim hafði áður skapað sér nafn í vínheiminum sem hann framleiddi undir eigin nafni. Þegar hann seldi víngerðina leið ekki á löngu áður en þau hjónin voru komin aftur af stað og stofnuðu Loveblock. Þau framleiða nú vín úr flestum þeim þrúgum sem ræktaðar eru á Nýja-Sjálandi, en auðvitað er Sauvignon Blanc þeirra aðalsmerki.

Vín dagsins

Þrúgurnar sem fara í þetta vín eru að hluta til tíndar með höndum og að hluta með vélum. Handtíndi og véltíndi hlutinn er svo gerjaður hvort í sínu lagi. Handtíndi hlutinn er settur í amfórur, steinsteypt egg og tunnur úr franskri eik, en véltíndi hlutinn gerjast í stáltönkum. Vínið er vegan og framleiðsluferlið allt lífrænt.

Loveblock Sauvignon Blanc Marlborough 2020 er fallega fölgult á lit, með ljúfan ilm af eplum, perum, hunangi, ástaraldinum og melónum. Í munni er vínið þurrt og sýran snörp, með þægilegan keim af apríkósum, perum, rauðum eplum og melónum. Ákaflega matarvænt vín sem steinlá með saltfiskinum! Fer líka vel með öðrum fiskréttum, ljósu fuglakjöti og pastaréttum. 89 stig. Góð kaup (3.290 kr). Sýnishorn frá innflytjanda.

„Apples, pear, honey, passion, melon in the nose. Crisp and dry, with notes of apricots, pear, red apples and melon. Very nice!“

Það eru fáar umsagnir um þetta vín á Vivino en meðaleinkunn allra árganga er 4.1 stjarna. Þorri Hringsson gefur þessu víni 4,5 stjörnur.

Loveblock Sauvignon Blanc Marlborough 2020
Loveblock Sauvignon Blanc Marlborough 2020 er ákaflega matarvænt vín sem fer vel með fiskréttum, pasta og ljósu fuglakjöti.
4
89 stig

Vinir á Facebook