Finca Bacara Yeya Moscatel-Chardonnay 2018

Það munu vera til yfir 200 mismunandi afbrigði af þrúgunni Moscatel víðs vegar í heiminum. Hvert afbrigði á svo mörg mismunandi heiti að það hljómar eins og óyfirstíganlegt verkefni að átta sig á þessari þrúgu. Þar að auki geta þrúgurnar verið ýmist ljósar, bleikar eða dökkar. Algengast er þó að þrúgan sé notuð í hvítvínsgerð, en henni hefur oft verið blandað út í rauðvín, m.a. til að auka áfengisinnihald vínsins. Það að svo mörg mismunandi afbrigði eru til af Moscatel-þrúgunni er talið gefa til kynna að hún sé ein elsta þrúgan sem sem ræktuð hefur verið sérstaklega til víngerðar. Með tímanum hafa afbrigði hennar þróast í mismunandi átt (sbr. mismunandi lit á þrúgunum) og eru mörg hver ekker sérstaklega skyld í dag. Áhugasamir geta lesið meira um þessar þrúgur hérna.

Í dag eru aðeins nokkur af Moscatel-afbrigðunum notuð til víngerðar. Muscat blanc à Petits Grains er ræktuð víða um heim og gengur auðvitað undir mismunandi nöfnum (t.d. Muscat blanc, Muskateller). Þrúgurnar geta verið ýmist ljósar eða dökkar og liturinn getur einnig breyst mili ára. Þrúguna má m.a. finna í Moscato d’Asti freyðivínum frá Ítalíu og í styrktu sætvínunum vin doux naturels í suður-Frakklandi. Muscat Ottonel er ræktuð víða í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna sálugu og í austur-Evrópu. Muscat of Hamburg eða Black Muscat er að mestu ræktuð til neyslu sem vínber, en í Kína og Kaliforníu er hún notuð til víngerðar.

Það afbrigði sem er að finna í víni dagsins kallast Moscatel de Alexandria. Nafnið vísar til borgarinnar Alexandríu í Egyptalandi, en þrúgan er nú að mestu ræktuð á ýmsum eyjum í Miðjarðarhafi. Þrúgan mun lika vera 6. mest ræktaða hvíta þrúgan á Spáni, þar sem hún er mest ræktuð við austurstöndina og á Kanaríeyjum. Þá er hún einnig notuð við gerð sætra vinho moscatel í Setúbal-héraði, rétt fyrir sunnan Lissabon.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Finca Bacara í Jumilla á Spáni. Það mun vera kennt við sjávargyðjuna Yeya, en mér hefur því miður ekki tekist að finna neitt um þessa gyðju. Vínið er blanda Moscatel og Chardonnay, líkast til í nokkuð jöfnum hlutföllum.

Finca Bacara Yeya Moscatel-Chardonnay 2018 er strágult á lit, unglegt. Í nefinu finnur maður suðræna ávexti á borð við papaya og ananas, ásamt melínum, perum og smá hunangi. Í munni er vínið þurrt, með hóflega sýru og þokkalega fyllingu. Epli, perur, sítrónur og hunangsmelónur. Sumarlegt vín. Fer vel með fiskréttum ýmsum (mér datt strax í hug saltfiskurinn hans Kristófers í Gallerý Fisk), ljósu fuglakjöti og salati. Verður líka gott í sumar á meðan steikin er á grillinu. Góð kaup (2.751 kr). 87 stig. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.9 stjörnur (603 umsagnir þegar þetta er skrifað), þar á meðal Þorri Hringsson sem gefur því 4 stjörnur.

Finca Bacara Yeya Moscatel-Chardonnay 2018
Finca Bacara Yeya Moscatel-Chardonnay 2018 er sumarlegt vín sem fer vel með fiski og ljósu fuglakjöti. Verður gott með grillinu í sumar.
4
87 stig

Vinir á Facebook