Finca Bacara 3015 Monastrell 2019

Vínhéraðið Jumilla er hluti af Murcia-héraði í austurhluta Spánar, skammt frá Alicante og Benidorm. Héraðið slapp einhverra hluta vegna við Phylloxera-faraldurinn sem lagði margar vínekrur í Evrópu í rúst á 19. öld. Vínbændur þar voru því ekki búnir að gróðursetja nýjan vínvið sem rótarlúsin lét í friði. Árið 1989 kom óvænt upp nýr rótarlúsarfaraldur sem eyðilagði margar vínekrur í Jumilla. Framleiðslan minnkaði mjög næstu árin á meðan vínbændur ræktuðu upp nýjan vínvið. Á þessum sama tíma gátu vínbændur hins vegar tekið upp nýjar aðferðir við ræktun og víngerð sem höfðu reynst vel í nágrannahéruðunum Alicante og Almansa.

Vínekrurnar í Jumilla ná yfir tæplega 19 þúsund hektara og eru samkvæmt því 9. stærsta vínræktarhérað Spánar. Hins vegar eru nokkuð strangari reglur um hámark uppskeru á hvern hektara en í flestum öðrum héruðum Spánar. Þess vegna er héraðið aðeins í 19. sæti þegar horft er til vínmagns sem framleitt er í héraðinu. Rúmlega helmingur framleiðslunnar er seldur á innanlandsmarkaði, en um 45% fara á alþjóðamarkaði.

Monastrell er mikilvægasta þrúgan í Jumilla og um 85% framleiðslunnar eru Monastrell-þrúgur. Framleiðendum er heimilt að blanda saman þrúgum/safa frá mismunandi árgöngum, en til að geta tilgreint árgang vínsins þurfa minnst 85% vínsins að vera frá sama árgangi. Sum vínhús framleiða vín sem ætluð eru til neyslu fljótlega og ekki til geymslu, en flestir framleiða einnig Crianza, Reserva og Gran Reserva. Það á reyndar ekki við um Finca Baraca, sem framleiðir aðeins vín sem eru tilbúin til neyslu og ekki hugsuð til langrar geymslu.

Þegar þetta er skrifað eru aðeins 3 vín frá Jumilla í hillum vínbúðanna, þar á meðal vín dagsins.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunni Monastrell og allt framleiðsluferlið uppfyllir skilyrði um vegan framleiðslu. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 2 mánuði á tunnum úr amerískri eik áður en því er tappað á flöskur.

Finca Bacara 3015 Monastrell 2019 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, leður, pipar, vanillu og smá lakkrís. Í munni er vínið þurrt, með miðlungstannín, ágæta sýru og fínan ávöxt. Gott jafnvægi. Ávaxtaríkt bragð af rauðum berjum, kirsuberjum, kakó og smá hrati í lokin. 88 stig. Góð kaup (2.990 kr). Fer vel með ostum, pastaréttum, léttari kjötréttum, grillmat, pylsum og smáréttum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Robert Parker gefur þessu víni 86 stig. Notendur Vivino gefa 3.7 stjörnur (aðeins 69 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Finca Bacara 3015 Monastrell 2019
Finca Bacara 3015 Monastrell 2019 er þægilegt vín sem fer vel með pylsum, léttari kjötréttum, grillmat, pastaréttum og ostum.
4
88 stig

Vinir á Facebook