Il Poggione Brunello di Montalcino 2014

Þegar rætt er um vín frá Toscana dettur flestum líklega í hug Chianti og Chianti Classico, enda líklega þekktustu vínhéruð Toscana. En bestu Toscana-vínin koma þó líklega frá vínekrunum í kringum þorpið Montalcino. Nafnið vísar til þess að þrúgan sem notuð er í víngerðina var kölluð Brunello. Síðar kom þó í ljós að sú þrúga er í raun Sangiovese-þrúgan, sem er aðalþrúgan í Toscana.

Víngerð í Montalcino á sér auðvitað langa og merka sögu, líkt og önnur víngerð í Toscana. Þegar í ljós kom að þrúgan Brunello var í raun Sangiovese fór vínhúsin smátt og smátt að kenna vín sín við þorpið Montalcino, og nafnið Brunello festist einnig við þau. Þegar víngerð á Ítalíu fór að þróast meira og vínhús fóru að víkja frá gömlu hefðunum, m.a. með notkun þrúga sem ekki höfðu verið mikið ræktaðar á Ítalíu og tilkomu annarra nýjunga og nýrra vína á borð við ofur-Toscanavínin, jókst þörfin á að skerpa nánar á reglunum um ítalska víngerð. Ofur-Toscanavínin urðu ekki lengur borðvín eða vino di tavola heldur Indicazione geografica tipica (IGT) og einnig var tekin upp ný skilgreining – Denominazione di origine controllata e garantita (DOCG) – sem er hæsta gæðastig ítalskrar víngerðar með ströngustu reglurnar. Í upphafi voru aðeins Barolo, Vino Nobile di Montepulciano og Brunello di Montalcino sem féllu undir DOCG, en fljótlega bættist Barbaresco í þann hóp.

Áhugasamir geta lesið þessa grein og þessa grein á Wikipedia.

Vín dagsins

Vínhús Il Poggione hefur framleitt Brunello di Montalcino frá upphafi 20. aldar og vín þeirra þykja jafnan í hópi þeirra bestu frá Montalcino. Vín dagsins hefur ratað inn á topp 100-lista Wine Spectator og til að mynda lenti 2010-árgangurinn í 4. sæti árið 2015 og Rosso di Montalcino („ódýra“ vínið þeirra) komst inn á listann fyrir 3 árum með 2015-árganginn.

Il Poggione Brunello di Montalcino 2014 er hreint Sangiovese sem fékk að liggja í 30 mánuði á frönskum eikartunnum fyrir átöppun á flöskur. Vínið er rúbínrautt á lit, unglegt og með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, tóbak, ögn af kakó og smá rósir. Í munni er gnægð af tannínum, góð sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, plómur, tóbak og kakó í löngu en silkimjúku eftirbragðinu. Frábært vín sem eflaust á eftir að batna enn frekar á næsta áratug. 95 stig. Mjög góð kaup (7.290 krónur). Drekkið með góðum steikum – naut, villibráð – eða þroskuðum ostum.

Robert Parker gefur þessu víni 94 stig. Wine Spectator gefur því 92 stig og notendur Vivino gefa 4.2 stjörnur (1.546 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Il Poggione Brunello di Montalcino 2014
Il Poggione Brunello di Montalcino 2014 er frábært vín sem eflaust á eftir að batna enn frekar á næsta áratug.
5
95 stig

Vinir á Facebook