Billecart-Salmon Champagne Brut Rosé

Tuttugasta og fjórða starfsár Vínsíðunnar hófst eins og flestu ár ættu að hefjast – með kampavíni! Eins og kom fram í áramótauppgjörinu fyrir árið 2020 fór ákaflega lítið fyrir kampavínum hér á Vínsíðunni, og aðeins eitt vín hlaut umsögn. Nú er ég sem sagt búinn að jafna þann árangur og stefni að því að gefa kampavínum gott pláss á Vínsíðunni á þessu ári.

Saga vínhúss Billecart-Salmon nær aftur til ársins 1818 og er nú í höndum 7. kynslóðar fjölskyldunnar. Árið 1999 var haldin blindsmökkunarkeppni þar sem valið var kampavín þúsaldarinnar (Champagne of the Millennium). Billecart-Salmon átti tvö efstu vínin í þeirri keppni – árgangskampavín frá 1959 (1. sæti) og 1961 (2. sæti). Jean Roland-Billecart, sem sá um víngerðina á þessum árum, innleiddi gerjun við lægra hitastig en venja var í Champagne. Þá lyfti hann rosé-kampavíni upp á hærri stall en þau höfðu áður verið á, því þá þóttu þau ekki jafn fín og hin kampavínin. Þeir sem hafa áhuga á að kynnast betur þessu merka vínhúsi geta litið við á fallegri heimasíðu vínhússins, eða jafnvel skellt sér til Frakklands (þegar það verður aftur óhætt).

Vín dagsins

Rosé-kampavínið frá Billecart-Salmon er blandað úr Chardonnay (40%), Pinot Meunier (30%) og Pinot Noir (30%). Þrúgurnar eru unnar og gerjaðar hver í sínu lagi. Gerjun og víngerð Pinot Noir er eins og við rauðvínsgerð, þ.e. búið er til rauðvín sem síðan er blandað við hvítvínín sem gerð eru úr Chardonnay og Pinot Meunier. Þetta vín er ekki árgangsvín, heldur er það blanda nokkurra árganga, þó yfirleitt sé einn þeirra ráðandi á hverju ári. Markmiðið er að vínið sé eins frá ári til árs og neytendur viti því upp á hár hvað þeir eru að kaupa.

Billecart-Salmon Champagne Brut Rosé NV er fallega bleikt með örlítilli gylltri áferð og freyðir fallega í glasinu. Í nefinu finnur maður rauð ber, smá appelsínubörk, sítrus, ferskjur og smá ger. Í munni er vínið frísklegt en þó með góða fyllingu. Hindber, græn epli, ristað brauð, möndlur og smá steinefni í fáguðu og ljúffengu eftirbragðinu, sem heldur sér vel. Dásamlegt eitt og sér en fer eflaust mjög vel með laxi eða sushi. Góð kaup (9.690 kr). 94 stig.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4.4 stjörnu (16.000 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur víninu 90 stig og Wine Spectator gefur því 92 stig. Þorri Hringsson gefur 4,5 stjörnur.

Billecart-Salmon Champagne Brut Rosé
Billecart-Salmon Champagne Brut Rosé er dásamlegt kampavín eitt og sér en fer eflaust mjög vel með laxi eða sushi.
5
94 stig

Vinir á Facebook