Nýársuppgjör Vínsíðunnar 2019

Vín ársins 2019

Þá er 22. starfsári Vínsíðunnar á enda og 23. starfsárið hafið. Umsvifin voru heldur í minni kantinum þetta árið og aðeins 54 umsagnir litu dagsins ljós eða að jafnaði 1 á viku. Í fyrra voru víndómarnir 95 talsins og ljóst að ritstjóri þarf aðeins að gefa í á nýju starfsári. Undanfarin ár hefur hlutur sýnishorna frá innflytjendum verið ríflegur helmingur allra vína sem hlotið hafa umsögn hér á síðunni en í ár eru þau aðeins um 40% sem skýrir að einhverju leyti færri víndóma þetta árið. Þá vantar nokkuð upp á að umsagnir Vínklúbbsins hafi ratað inn á Vínsíðuna þetta árið en ritstjóri stefnir á að gera betur.

Alls voru víndómarnir 54 eins og áður segir. Þar af eru 3 freyðivín, 10 hvít og 41 rautt. Ekkert freyðivínanna náði 90 stigum og aðeins eitt hvítvín náði 90 stigunum. Ef ég hefði skrifað umsögn um hið stórfenglega Penfolds Yattarna sem ég fékk að smakka i sumar hefði það klárlega farið langt yfir 90 stigin. Það voru hins vegar 22 rauðvín sem náðu 90 stiga markinu, þar af 3 sem fengu 95 eða meira. Tvö þau stigahæstu voru reyndar sitt hvor árgangurinn af sama víni – Chateau Pichon Longueville Comtesse de Lalande Pauillac 2001 og Chateau Pichon Longueville Comtesse de Lalande Pauillac 1985 – bæði fengu 96 stig en koma varla til greina sem vín ársins því þau eru ekki fáanleg hérlendis. Það síðastnefnda var einnig langelsta vínið sem ég smakkaði á árinu.

Ég hef flest starfsár Vínsíðunnar útnefnt Vín ársins og þetta ár verður engin undantekning. Valið er hins vegar nokkuð erfiðara en oft áður, því það var ekkert vín sem skaraði fram úr svo um munaði. Við valið er auðvitað horft til verðs og gæða og svo kannski einhvers vá-þáttar sem erfiðara er að skilgreina. Þannig hittist svo á að það vín sem fær flest stig í ár (þá eru gömlu frakkanir hér að ofan ekki taldir með) – Chryseia 2015 – er líka dýrasta vínið sem fjallað er um þetta árið (6.998 kr). Annað vín sem ég hefur áður kallað ein bestu kaupin í Fríhöfninni – Bodeags Cepa 21 Ribera del Duero 2015 – fékk 92 stig hjá mér en það þarf því miður að sérpanta ef maður vill nálgast í vínbúðunum (3.599 kr).

Vín ársins 2019

Vín ársins hefur verið fáanlegt í vínbúðunum í nokkuð langan tíma og hefur ávallt staðið fyrir sínu. Sá árgangur sem nú stendur okkur til boða er hins vegar einn sá besti í sögu þessa víns (sem spannar um 40 ár). Þrúgurnar koma af hinum goðsagnakenndum Tignanello-vínekrum, en þaðan koma einnig 2 af þekktustu vínum Ítalíu – Tignanelol og Solaia.

Marchesi Antinori Chianti Classico Riserva 2015

Vín ársins 2019 er Marchese Antinori Chianti Classico 2015. Það hlaut 93 stig hjá mér og eftirfarandi umsögn: “ er djúprautt á lit, unglegt, með góða dýpt.  Í nefinu finnur maður leður, sólber, plómur, eik, timjan, lakkrís, vanillu og pipar. Í munni eru mjúk og flott tannín, góð sýra og þægilegur ávöxtur. Plómur, eik, leður og súkkulaði í frábæru eftirbragðinu. Frábær kaup“. Steingrímur á Vinotek.is og Þorri í Víngarðinum gáfu þessu víni báðir 5 stjörnur og frábærar umsagnir. Ég mæli eindregið með að þið prófið þetta frábæra vín áður en 2015-árgangurinn klárast í vínbúðunum.

Vínsíðan þakkar lesendum samfylgdnina undanfarna áratugi og tekur fagnandi á móti nýju ári.

Vinir á Facebook