Penfolds Koonunga Hill Shiraz Cabernet 2017

Gamall vinur sóttur heim á ný

Fyrir 20 árum eða svo voru vínin frá Penfolds algeng sjón í hillum Vínbúðanna og þar mátti sjá vín á borð við Bin 407, Bin 389, Kalimna Bin 28 og Koonunga Hill Shiraz Cabernet, auk Koonunga Hill Chardonnay í hvítu. Síðastnefnda rauðvínið rataði inn á vef Vínsíðunnar á nánast hverju ári og þegar ég fletti í gegnum gamlar færslur má finna umsagnir fyrir 1996, 1997, 1998 og 2000 árgangana. Koonunga Hill sá ég ekki alltaf í vínbúðunum í Svíþjóð en þó hef ég náð að skrifa um það í 2-3 skipti á þeim áratug sem ég bjó ytra.

Eftir heimkomuna hefur þetta vín ekki oft komið inn á mitt borð, og því miður hefur áströlskum vínum fækkað verulega frá því sem var þegar ég flutti út. Auðvitað eru ástæður þess margvíslegar – verðið hækkar og svo breytist smekkur fólks. Koonunga Hill hefur þó nær alltaf verið nokkuð skothelt og hægt að ganga þar að ákveðnum gæðum vísum. Þegar ég átti leið í Vínbúðina um daginn þá ákvað ég að tími væri kominn til að rifja upp gamla vináttu og kippti einni K-H Shiraz Cabernet með.

Vín dagsins

Koonunga Hill leit fyrst dagsins ljós árið 1976 og var þá kennt við Coonawarra-héraðið. Í dag er það ekki lengur svo, heldur koma þrúgurnar frá ýmsum vínekrum Penfolds í Suður-Ástrlíu – Barossa Valley, McLaren Vale, Padthaway, Eden Valley, Langhorne Creek, Wrattonbully og Adelaide Hills. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 1 mánuði á nýjum og notuðum amerískum eikartunnum áður en því er svo tappað á flöskur.

Penfolds Koonunga Hill Shiraz Cabernet 2018 er djúprautt á, með miðlungsdýpt og unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður plómur, timjan, pipar, sólber og vott af eik. Í munni eru mjúk tannín, fín sýra og góður ávöxtur. Súkkulaði, plómur og pipar í ágætu eftirbragðinu. 89 stig, Góð kaup (2.799 kr). Nýtur sín vel næstu 4 árin eða svo, einkum með grilluðu nauta- og lambakjöti.

Penfolds Koonunga Hill Shiraz Cabernet 2017
Góð kaup
Nýtur sín vel næstu 4 árin eða svo, einkum með grilluðu nauta- og lambakjöti.
4
89 stig

Vinir á Facebook