Artadi Vinas de Gain Vineyard Selection 2015

Þrúgan Viura er mjög mikilvæg í spænskri víngerð, þar sem hún er uppistaðan í hvítvínum frá Rioja og Katalóníu. Í Katalóníu gengur hún undir nafninu Macabeu og þar er hún einnig notuð við gerð Cava-vínanna, ásamt Xarel-lo og Parellada. Þrúgan er líka ræktuð í Languedoc í Frakklandi þar sem hún er notuð í hvítvínsgerð.

Viura gefur af sér þurr vín með góða fyllingu og fína sýru, og þau geta þolað allt að 10-15 ára geymslu, séu vínin vel gerð. Almennt má greina hunangsmelónur, límónur og stundum heslihnetur í þessum vínum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Artadi, sem ég hef áður fjallað um. Það er gert úr 100% Viura sem hefur að lokinni gerjun verið látið þroskast í 2 ár og 9 mánuði í stáltönkum. Aðeins voru framleiddir um 1000 kassar af víninu.

Artadi Vinas de Gain Vineyard Selection Blanco 2015

Artadi Vinas de Gain Vineyard Selection Blanco 2015 er strágult á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður hunangsmelónur, límónubörk, perur og ögn af vanillu. Í munni er snörp sýra, fínn ávöxtur og góð fylling. Hunangsmelónan og límónubörkurinn ráða ferðinni í góðu eftirbragðinu. Fer vel með austurlenskum mat og ljósu fuglakjöti. 89 stig. Ætti að endast vel í nokkur ár til viðbótar. 3.990 kr.

Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig.

Artadi Vinas de Gain Vineyard Selection 2015
Fer vel með austurlenskum mat og ljósu fuglakjöti. 89 stig. Ætti að endast vel í nokkur ár til viðbótar.

Vinir á Facebook