Artadi Pasos de San Martin 2015

Áfram heldur umfjöllunin um vínin frá Artadi, sem ég hef verið að fjalla um undanfarna daga. Vín dagsins tilheyrir reyndar þeim armi vínhússins sem kallast Bodegas Artazu og er staðsett í Navarra-héraði á Spáni.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá 35 ára gömlum vínekrum við þorpið San Martin de Unx, sem liggur í u.þ.b. 600m hæð yfir sjávarmáli. Vínið er gert úr 100% Garnacha sem að lokinni gerjun voru látin liggja í 12 mánuði á stórum tunnum úr franskri eik.

Artazu Pasos de San Martin 2015 er rúbínrautt á lit, unglegt, með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kryddaða angan af kirsuberjum, sólberjum og franskri eik. Í munni er vínið frísklegt, með mjúk tannín, ágæta sýru og mildur ávöxtur. Kryddað tóbak, vanilla og steinefni í mildu en mjög góðu eftirbragði. 92 stig. Mjög góð kaup (3.790 kr). Vín fyrir alvöru steikur.

Robert Parker gefur þessum árgangi 91 stig. Wine Spectator hefur ekki dæmt þennan árgang en 2013 og 2012 fá 91 og 90 stig. Notendur Vivino hafa verið að gefa þessu víni (aðrir árgangar) 3.8 – 4.0 í einkunn.

Artadi Pasos de San Martin 2015
Artadi Pasos de San Martin 2015 er flott vín á góðu verði sem er eins og klæðskerasniðið að alvöru steikum!
4.5
92 stig

Vinir á Facebook