Baigorri Crianza 2016

Eitt af því sem bættist í flóru vínbúðanna um mánaðamótin eru vín frá vínhúsi Baigorri í Rioja á Spáni – rautt Crianza og hvítt Blanco (Viura og Malvasia). Sjálft vínhúsið þykir ákaflega vel hannað og þeir sem þangað hafa komið hafa lýst aðdáun sinni á byggingunni. Sjálfur hef ég ekki verið svo heppinn en væri alveg til í að líta við hjá þeim. Húsið er hannað þannig að þyngdaraflið er nýtt eins vel og hægt er þannig að ekki þarf að dæla víninu með vélknúnum dælum þegar það er fært í og úr tönkum og tunnum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Bodegas Baigorri og er að mestu gert úr Tempranillo (90%) ásamt lítilræði af Garnacha og „öðrum þrúgum“. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 14 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik.

Bodegas Baigorri Crianza 2016 er kirsuberjarautt á lit, með miðlungsdýpt, aðeins skýjað að sjá og unglegt. Í nefinu finnur maður kirsuber, bláber, leður, pipar, vanillu og örlítið kakó. Í munni eru aðeins hrjúf tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Ágætt jafnvægi. Súkkulaði, vanilla og plómur í góðu eftirbragðinu. Fer vel með hvers konar kjötréttum, þó einkum grilluðu kjöti. 89 stig – mjög góð kaup (2.999 kr).

Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur þessu víni 4,5 stjörnur

Baigorri Crianza 2016
Mjög góð kaup. Fer vel með hvers konar kjötréttum, þó einkum grilluðu kjöti.
4
89 stig

Vinir á Facebook