El Seque Monastrell Alicante 2016

Í hverjum mánuði koma nýjar og spennandi vörur í hillur vínbúðanna. Sumar meira spennandi en aðrar. Í gær komu nokkur vín frá vínhúsi Artadi á Spáni. Þetta vínhús er tiltölulega ungt – stofnað árið 1985 í Laguardia í Álava, sem er rétt norðan við Rioja. Starfsemin nær nú líka yfir vínekrur í Navarra og í Alicante.

Vínin frá Alicante hafa ekki verið í hávegum höfð í gegnum tíðina, en undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í víngerð þar líkt og í öðrum héruðum Spánar, og mörg spennnandi vín hafa ratað á fjörur okkar Íslendinga. Mörg okkar fara líka til Alicante á hverju ári til að sleikja sólina og það er því um að gera að prófa vínin úr héraðinu, en ég myndi samt mæla með því að velja ekki það allra ódýrasta.

Vín dagsins

Eitt af vínunum sem komu í vínbúðirnar í gær kemur frá Alicante og er gert úr þrúgunni Monastrell (einnig þekkt sem Mourvedre). Vín dagsins kemur frá Alicante-héraði, nánar tiltekið af frekar gömlum vínvið á sendnum vínekrum við Pinoso, þar sem ræktunarferlið er allt lífrænt. Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 12 mánuði á stórum tunnum úr franskri eik.

El Seque Alicante Monastrell 2016 er dökkrautt á lit, ungt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, pipar, leður og krydd. Í munni eru góð tannín, aðeins rífleg sýra og fínn ávöxtur. Kirsuber og súkkulaðirúsínur í góðu eftirbragði ásamt mildum eikarkeim. Þægilegt og notalegt vín. 92 stig. Mjög góð kaup (4.190 kr).

Robert Parker gefur þessu víni 93 stig og fyrri árgangar hafa verið að fá 90-92 stig.

El Seque Monastrell Alicante 2016
Mjög góð kaup! Fer vel með góðri steik og ostum.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook