Rebel.lia

Undanfarna daga hef ég verið að prófa vín frá hinu ágæta Vegalfaro-vínhúsi, sem er staðsett í nágrenni Valencia, nánar tiltekið á víngerðarsvæðinu Utiel-Requena. Þau vín sem ég hef hingað til prófað hafa vakið almenna lukku og fengið ágætar umsagnir víðast hvar.

Nafnið Rebel.lia vísar til þess að víngerðarmaðurinn Rodolfo Valiente lagði fyrst stund á lögfræði en vendi síðan kvæði sínu í kross og gerðist víngerðarmaður og bassaleikari í rokkhljómsveit. Rebel.lia var útnefnt besta lífræna vínið á Spáni árið 2018.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Tempranillo og Garnacha Tintorera (í Portúgal kallast sú þrúga Alicante Bouschet). Þrúgurnar eru gerjaðar hvor fyrir sig en að lokinni blöndun er vínið látið liggja í 3 mánuði á eikartunnum. Allt framleiðsluferlið er lífrænt vottað.

Vegalfaro Rebel.lia Tinto 2018 er fjólurautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður fjólur, plómur, rauð kirsuber og léttan blómailm. Í munni eru nokkuð hrá tannín, góð sýra og sæmilegur ávöxtur, en hins vegar skortir nokkuð upp á fyllinguna sem ég hefði búist við í vínu úr þessum þrúgum. Léttur berjakeimur er ráðandi í þokkalegu eftirbragðinu. Fer eflaust vel með léttum pastaréttum, spænskri skinku og jafnvel ostum í kokteilboði. 86 stig.

Þorri Hringsson gefur þessu víni 3,5 stjörnur. Notendur Vivino.com gefa því 3,6 (51 umsögn) en James Suckling gefur því 90 stig.

Rebel.lia Tinto 2018
Fer eflaust vel með léttum pastaréttum, spænskri skinku og jafnvel ostum í kokteilboði.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook