Caprasia Bobal-Merlot 2017

Líklega hefur það verið fyrir rúmum 5 árum eða svo þegar heyrði fyrst minnst á þrúguna Bobal. Þá voru um tíma fáanleg s.k. góðgerðarvín sem þekktir listamenn ljáðu nafn sitt við og hagnaður af sölu vínanna rann til góðgerðarmála. Vínið sem innihélt þessa þrúgu var þá kennt við hljómsveitina Coldplay, en ég varð aldrei svo heppinn að smakka þetta tiltekna vín. Fyrir 2 árum fékk ég svo loksins að smakka vín úr þessari þrúgu þegar ég smakkaði Mikeala.

Bobal virðist helst hafa verið ræktuð í héraðinu Utiel-Requena á Spáni, en hana er einnig að finna í Valencia, Albacete og Cuenca. Ég býst ekki við að margir lesendur séu vel kunnugir þessum vínhéruðum, en engu að síður eru vín þaðan farin að slæðast inn í hillur vínbúðanna og er það vel.

Vín dagins

Caprasia Bobal Merlot 2017

Bodegas Vegalfaro Caprasia Bobal-Merlot 2017 er dökkkirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður skógarber, leður, fjólur, krydd og lyng. Í munni eru stinn tannín, hófleg sýra, smá spritt og sæmilegur ávöxtur. Jarðarber, leður og brúnar töggur (kakó) í eftirbragðinu. Vínið er aðeins hrátt í stílnum og fer eflaust vel með einföldum grillmat, pasta og léttum kjötréttum. Þarf líklegast 1-2 ár til viðbótar til að njóta sín sem best. 88 stig. Mjög góð kaup (2.490 kr).
Þorri Hringsson gefur þessu víni 3 1/2 stjörnu (en er þó að daðra við fjórðu stjörnuna). 2015-árgangurinn fær 87 stig hjá Robert Parker og 90 stig hjá Wine Spectator.

Vegalfaro Caprasia Bobal Merlot 2017
4
88 stig

Vinir á Facebook