Pago de Los Balagueses Syrah

Um evrópska víngerð gilda ýmsar reglur varðandi héruð og svæði og hvernig vínin þurfi að vera gerð til að geta kennt sig við þessi tilteknu svæði. Spænsk víngerð er engin undantekning frá þessu og þar eru reglur varðandi gæðaflokkun og fleira er viðkemur víngerðinni. Efst í spænska virðingarstiganum eru vín sem kallast Vino de Pago, sem koma af sérstaklega skilgreindum vínekrum sem kallast Pago og má líkja þeim við Grand Cru vínekrur í Frakklandi. Þessar vínekrur eru 17 talsins og misjafnlega stórar – frá 16 og upp í tæplega 140 hektara. Í þessi vín má eingöngu notast við þrúgur sem koma af þessum vínekrum og reglurnar sem þeim fylgja eru nokkuð strangari en almennt gildir um spænska víngerð.

Ein af þessum Pago vínekrum er Pago de Los Balagueses, sem hlaut þessa útnefningu árið 2011. Það er vínhús Vegalfaro sem gerir vín úr þrúgunum af þessari vínekru og alls koma 4 mismunandi vín sem eru kennd við Pago de Los Balagueses – 1 hvítt og 3 rauð.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunni Syrah sem kemur af 30 ára gömlum vínvið. Víngerðarferlið er allt lífrænt, og þess er gætt að uppskeran verði ekki of mikil. Þannig komu aðeins um 1,8 kíló af hverri Syrah-vínviðarplöntu þetta árið. Vínið var látið liggja í tunnum úr franskri eik (70% nýjar tunnur og 30% notaðar) í 10 mánuði og svo í aðra 6 mánuði á flösku áður en það var sett í sölu. Alls voru framleiddar um 15.000 flöskur af þessum árgangi.

Vegalfaro Pago de Los Balagueses Syrah 2016 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá, með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður leður, kirsuber, pipar og krydd. Í Munni eru hrjúf tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Leður, tóbak, súkkulaði, sólber, balsam og krydd í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. 90 stig. Frábær kaup (3.890 kr).

Pago de Los Balagueses Syrah 2016
4
90 stig

Vinir á Facebook