Alþjóðlegi kampavínsdagurinn

Alþjóðlegi kampavínsdagurinn var haldinn í gær og ég verð að viðurkenna að það fór alveg fram hjá mér, þangað til í gærmorgun. Alþjóðlega kampavínsdeginum er einfaldlega ætlað að vekja athygli á kampavínum og hann hefur, eftir því sem ég kemst næst, verið haldinn í 10 ár. Þennan dag er tilvalið að fá sér kampavín, helst með góðum vinum, og ekki spillir ef einhver góður munnbiti fylgir. Kampavín eru nefnilega ein matarvænustu vín sem hægt er að finna!

Reyndar eru bandaríkjamenn með sinn eigin dag, eins og þeim einum er lagið – 31. desember. Það er reyndar nokkuð vel til fundið því það er líklega sá dagur þar sem flestir drekka kampavín enda tilefnið gott.

Það er gaman að opna kampavínsflöskur en maður þarf þó að fara aðeins varlega því annars getur ýmislegt gerst. Hér er myndband sem sýnir nokkur dæmi um það…

Það verður þó að viðurkennast að kampavín eru flest í dýrari kantinum fyrir venjulega neytendur. Ódýrasta kampavínið í vínbúðunum kostar 3.929 krónur og það eru aðeins tvö vín undir 4.000 krónum (þ.e. 750 ml flöskur). Framboðið er reyndar ágætt því það eru 46 mismunandi kampavín fáanleg í vínbúðunum. Fyrir þá sem vilja aðra valkosti þá er hægt að benda á önnur freyðivín á borð við Crémant og Cava, sem eru gerð með sömu aðferð og kampavín. Á Wine Folly er góð samantekt um Crémant og hana má lesa hérna.

Vín dagsins

Það varð niðurstaðan hjá mér í gær – við opnuðum eina Crémant d’Alsace sem ég fann í kælinum mínum. Dietrich Crémant d’Alsace er ljósgullið á lit og freyðir fallega í glasinu. Í nefinu eru gul epli, pera, steinefni og léttur sítrusilmur. Í munni er vínið þurrt og fínlegt, með ágætis eftirbragði þar sem epli og perur láta aðeins á sér kræla. Alveg prýðilegt freyðivín sem fær 87 stig.

Með þessu gæddum við okkur á gæsapaté með sultuðum rauðlauk og piparrótarsósu sem við keyptum í Kjötbúðinni á Grensásvegi.

Dietrich Crémant d'Alsace
3.5
87 stig

Vinir á Facebook