Afmæliskampavínið

Í sumar fórum við fjölskyldan í ferðalag til Frakklands. Aðaltilgangurinn var að fara á leiki á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu, en einnig vildum við skoða okkur um í sveitum Frakklands. Við flugum út til Brussel og keyrðum svo yfir til Valenciennes þar sem fyrsti leikurinn fór fram. Næsta dag ókum við svo áfram til Reims, sem er stærsta borgin í Champagne (íbúafjöldi borgarinnar og úthverfa hennar nálgast íbúafjölda Íslands) þar sem við gistum eina nótt. Reims á sér langa og merkilega sögu – hún er rúmlega 2000 ára gömul og þar voru frönsku konungarnir krýndir í hinni glæsilegu dómkirkju borgarinnar – þeir sem vilja fræðast meira um Reims geta lesið þessa grein á Wikipedia.

Á leiðinni frá Reims til Parísar ókum við hluta leiðarinnar í gegnum sveitir Champagne og ég hefði helst viljað stoppa á hverjum einasta bæ og í hverju einasta þorpi til að skoða mig betur um. Við litum þó bara inn á einum stað (maður verður víst að taka tillit til barnanna) – hjá vínhúsi Pascal Cez. Vínhús Pascal Cez er til þess að gera ný af nálinni, stofnuð 1980, og er s.k Récoltant  Manipulant, sem þýðir að vínin eru eingöngu gerð úr þrúgum sem koma af ekrum víngerðarinnar (engar aðkeyptar þrúgur og framleiðsluferlið er allt í höndum vínhússins). Þar inni var aðeins einn starfsmaður sem var að setja málmþynnur yfir tappana á flöskunum. Hann var á hækjum og sagðist nýlega hafa fótbrotnað þegar hann var í motorcross. Það aftraði honum þó ekki frá því að þvælast um allt til að leyfa okkur að smakka á framleiðslunni þeirra og líta aðeins í kringum okkur.

Eftir að hafa fengið að smakka örlítið á nokkrum vínunum þeirra varð niðurstaðan sú að við tókum með okkur 2 flöskur (takmarkað pláss í farangrinum) og önnur þeirra var svo opnuð um daginn þegar ég fagnaði því að vera orðinn árinu eldri.

Vín dagsins

Pascal Cez Champagne Brut Prestige er gert úr 60% pinot noir og 40% chardonnay. Vínið er strágult á lit og freyðir fallega í glasi. í nefinu finnur maður gul epli, sítrus, smá ristað brauð og ger. Í munni er vínið frísklegt og freyðir vel, með rauð epli í eftirbragðinu. Ágætt kampavín. 88 stig

Pascal Cez Champagne Brut Prestige
Ágætt kampavín
60% Pinot Noir og 40% Chardonnay
4
88 stig

Vinir á Facebook