Chateau Pichon Longueville Comtesse de Lalande Pauillac 2001

Áfram hélt gestgjafinn af draga fram eðalvín úr geymslunni sinni og nú var aftur haldið til Bordeaux, nánar tiltekið Pauillac-héraðs, sem þykir vera hið besta í Bordeaux.  Vínhúsið  sem hér um ræðir á sér nokkuð langa sögu og í Bordeaux-flokkuninni árið 1855 (þar sem vínhúsum var skipt í gæðaflokka) raðaðist það í 2. flokk eða Deuxièmes Crus.  Áður en að þeirri flokkun kom hafði vínhúsið verið mun stærra og kallaðist þá Chateau Pichon Longueville.  Árið 1850 var því hins vegar skipt upp í tvö vínhús – Chateau P-L Baron og Chateau P-L Comtesse de Lalande, sem bæði voru flokkuð sem Deuxièmes Crus. Áhugasamir geta lesið meira um þessa umdeildu flokkun vínhúsa hér.

Vín dagsins

Vínekrur Chateau P-L Comtesse de Lalande hafa óvenjumikið af Merlot miðað við aðrar vínekrur í Pauillac-héraði, eða um þriðjung (venjulega er Cabernet Sauvignon ráðandi í vínum frá Pauillac).  Samsetning vínanna er 45% Cabernet Sauvignon, 35% Merlot, 12% Cabernet Franc og 8% Petit Verdot, eða þar um bil (eftir árferði).  Árið 2001 var rétt í meðallagi hvað gæði varðar og stóð hinum frábæra 2000-árgangi nokkuð að baki.

Chateau Pichon Longueville Comtesse de Lalande Pauillac 2001 er múrsteinsrautt á lit, með góðan þroska, og góða dýpt.  Í munni eru útihús, frönsk eik, tóbak, leður, negull, greni og krækiberjalyng.  Í munni eru fínleg tannin, fín sýra og mjúkt og gott eftirbragð þar sem leður, útihús og tóbak koma vel fram.  Frábært vín sem fer vel með fínni steik og ostum eða bara eitt og sér.
96 stig.

Hvað segja hinir

Wine Spectator gaf aðeins 85 stig (árið 2004).

Robert Parker gaf 93 stig.

Notendur Vivino gefa 4.3 stjörnur (740 notendur)

Wine Enthusiast gefur 95 stig.

 

Vinir á Facebook