Wynn’s Cabernet Sauvignon John Riddoch Limited Release 1998

Með fjórða víninu á febrúarfundi Vínklúbbsins vorum heldur betur teknir í bakaríið af gestgjafanum.  Þar dró hann nefnilega fram vín frá framleiðanda sem hefur algjöra sérstöðu hjá meðlimum Vínklúbbsins, því víngerðararmeistari Wynn’s í Coonawarra í Ástralíu, Sue Hodder, hefur komið í heimsókn til Íslands í boði aðalritara klúbbsins og hélt einkasmökkun fyrir klúbbmeðlimi þar sem hún kom með sérstaklega valin vín með sér til að smakka.  Þar á meðal var vínið sem hér um ræðir, en reyndar mun yngri árgangur, því vín dagsins er rúmlega 20 ára gamalt.

Vín dagsins

Vín dagsins er annað af flaggskipum Wynn’s (hitt er Michael Shiraz) og þessi vín eru aðeins búin til þegar góðir árgangar eru á ferðinni og gæði þrúganna teljast nægileg til að búa til þessi vín (þannig eru t.d. ekki til 2011 og 2015 árgangar af þessu víni).  Það var fyrst búið til árið 1982 og þá hugsað sem flaggskip Wynn’s.  Hér er á ferðinni hreint Cabernet Sauvignon sem er látið liggja í um 18 mánuði á tunnum úr franskri eik áður en það er svo sett á flöskur.

Wynn’s Cabernet Sauvignon John Riddoch Limited Release 1998 er dökk-kirsuberjarautt á lit með mikla dýpt og það er kominn nokkur þroski í þetta vín.  Í nefinu finnur maður leður, útihús, pipar og plómur en lyktin er annars lokuð.  Í munni eru hrjúf tannin, ágæt sýra og góður ávöxtur. Í munni eru timjan, skógarber , útihús, lakkris og súkkulaði í löngu og elegant eftirbragði. Er líklegast komið yfir hápunkt ferilsins en á samt nokkur góð ár eftir.  Vín fyrir alvöru steikur. 94 stig.

Hvað segja hinir?

Wine Spectator gaf þessu víni 89 stig.

Wine Enthusiast gaf 90 stig.

Notendur Vivino gefa 4.4 stjörnur (293 umsagnir)

Vinir á Facebook