Chateau Pibran Pauillac 2014

Þriðja vín febrúarfundar Vínklúbbsins var franskt líkt og vínið á undan.  Líkt og vín nr. 2 þá kemur það frá Pauillac-héraði í Bordeaux.  Vínhús Chateau Pibran telst ekki til hinna stóru í Bordeaux, en vínekrur þess eru við hliðina á ekrum þessa stóru og vínin hafa verið nokkuð stöðug að gæðum í mörg ár og oftast hægt að gera ágæt kaup í þessum vínum.  Árið 2014 var aðeins erfitt veðurfarslega séð, því haglél skemmdu uppskeruna hjá mörgum framleiðendum.  Þannig er þessi tiltekni árgangur sem hér var smakkaður aðeins með um 30% af Cabernet Sauvignon á móti um 70% af Merlot, en venjulega eru hlutföllin nokkuð jöfn.  Að öðru leyti var 2014-árgangurinn alveg ágætur og fær almennt góðar umsagnir hjá vínrýnum.

Vín dagsins

Chateau Pibran Pauillac 2014 er djúpkirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska.  Í nefinu finnur maður súkkulaði, útihús, blýant, sólber, leður, grænar kryddjurtir og blóm.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og þétt fylling. Græn epli, leður, tóbak, súkkulaði og eik í ágætu eftirbragðinu.  Vínið er aðeins „grænt“ og þarf nokkur ár til viðbótar til að toppa.  Hentar vel með nauti, lambi og léttari villibráð. 92 stig. (5.999 kr).

Hvað segja hinir?

Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig.

Robert Parker gefur einnig 90 stig.

Notendur Vivino gefa 3.7 stjörnur (168 umsagnir).

Wine Enthusiast gefur 90 stig.

Vinir á Facebook