Kung Fu Girl 2016

Stærsta og mikilvægasta vínræktarhérað Washingtonríkis í BNA er Columbia Valley. Vínekrurnar ná yfir um 16.000 hektara (um 99% allra vínekra í Washington) og liggja meðfram Columbia-ánni og aðeins inn í Oregonríki.  Innan þessa svæðis eru svo 9 önnur skilgreind vínræktarsvæði (AVA), þar á meðal er svæði sem nefnist Ancient Lakes, en það eru aðeins 7 ár sem þetta svæði fékk sérstaka skilgreiningu sem vínræktarsvæði (AVA).  Þarna eru rúmir 700 hektarar af vínekrum, þar sem að mestu eru ræktaðar þrúgur til hvítvínsgerðar, einkum Riesling, Chardonnay og Pinot Gris, en næst Columbia ánni má einnig finna rauður þrúgur á borð við Merlot og Syrah.  Þarna eru svo 6 nafngreindar vínekrur, þar á meðal ein sem nefnist Evergreen, sem líklega er þekktust fyrir Eroica-hvítvínið, sem er afrakstur samstarfs Chateau Ste. Michelle og Dr. Loosen. Annar víngerðarmaður, Charles Smith, hefur einnig ræktað Riesling á þessari vínekru og þær þrúgur fara í vín dagsins.

Vín dagsins

Nafnið Kung Fu Girl mun vera tilkomið á þá leið að Charles Smith var að borða austurlenskan mat og horfa á bardagamynd þegar hann fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að búa til flott hvítvín sem hentaði austurlenskum mat.  Hér er um að ræða hreint Riesling sem kemur aldrei nálægt eikartunnum.  Undanfarnir árgangar hafa að jafnaði fengið 89-90 stig hjá Robert Parker og Wine Spectator.

Charles Smith Kung Fu Girl Riesling 2016 er fallega ljósgult með fína tauma, ungt.  Í nefinu eru ferskjur, mandarínur og apríkósur ásamt smá sítrónuberki.  Í munni er vínið frísklegt með góða sýru og örlitla sætu.  Ferskjur og mandarínur ráða ferðinni í góðu eftirbragðinu.  Fer vel með austurlenskum mat, salati, fiskréttum eða bara eitt og sér. 89 stig. Mjög góð kaup.

Hvað segja hinir?

Wine Spectator gefur 89 stig.

Wine Enthusiast gefur 87 stig

Vivino gefur 3,8 stjörnur

Vinir á Facebook