Baron de Ley Finca Monasterio 2015

Íslendingar virðast kunna vel að meta vínin frá víngerð Baron de Ley í Rioja, og skyldi engan undra því hér eru yfirleitt á ferðinni vönduð vín á góðu verði.  Í hillum vínbúðanna er að finna 8 vín frá þessari ágætu víngerð – 5 rauð, 1 rósavín og 2 hvítvín, þar af er annað þeirra hálfsætt.

Vín dagsins

Heitið á víni dagsins vísar til þess að þrúgurnar koma af vínekrum við gamalt klaustur í Rioja.  Það er að mestu leyti gert úr Tempranillo (80%) en fimmtungur þess er Cabernet Sauvignon. Vínið fékk að liggja í 18 mánuði í frönskum eikartunnum og svo aðra 6 mánuði í stærri eikarámum, einnig úr franskri eik.

Baron de Ley Finca Monasterio 2015 er dökkrúbínrautt á lit og unglegt að sjá með ágæta dýpt og fallega tauma.  Í nefinu finnur maður þéttan ilm af lakkrís, leðri, vanillu, plómum, sólberjum, kaffi og kryddjurtum. Í munni eru hrjúf tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Í eftirbragðinu eru eik, nýtt leður, sólber, lyng og kaffi. Vínið er aðeins hrjúft og hefur gott af umhellingu a.m.k. klukkustund fyrir neyslu. Mjög góð kaup (3.798 kr). Þetta vín hentar fyrir allar betri steikur – lamb, naut og villibráð. 92 stig.

Hvað segja hinir?

Steingrímur í vinotek.is gefur 5 stjörnur

Robert Parker gefur 90 stig.

Vinir á Facebook