Bestu kaupin í Fríhöfninni?

Þó að ég hafi varla tjáð mig án þess að lofa Rioja-vín í hástert þá má auðvitað ekki gleyma því að það eru fleiri góð vínræktarhéruð á Spáni.  Þeir eru líka margir sem telja að Ribera del Duero standi Rioja framar þegar rauðvín eru annars vegar.  Ég ætla ekki að taka afstöðu í þeim efnum en ætla samt að benda ykkur sem eruð á leið um Fríhöfnina að þar er hægt að gera ýmis góð kaup, þar á meðal í víni dagsins.

Vín dagsins

Víngerðin Bodegas Cepa 21 tilheyrir Moro-fjölskyldunni í Ribera del Duero, sem framleiðir líka vín undir eigin nafni, m.a. undir merkjum Emilio Moro.  Vínin frá Cepa 21 eiga að vera nútímalegri útgáfur af Ribera-vínum og öll eru þau hrein Tempranillo (eða Tinto Fino eins og þrúgan kallast í Ribera del Duero), einnig rósavínið þeirra.  Vín dagsins, sem ber nafn víngerðarinnar og héraðsins, var látið liggja í 12 mánuði á tunnum úr franskri eik áður en það var svo sett á flöskur.  Því miður þarf að sérpanta þetta vín ef maður vill nálgast það í vínbúðunum, en í staðinn má líka benda á vínið Hito frá sömu víngerð, en það hefur líka verið að fá mjög góða dóma hjá vínskríbentum.

Bodega Cepa 21 Ribera del Duero 2015 er kirsuberjarautt, unglegt og með góða dýpt. Í nefinu finnur maður plómur, leður, sólber, pipar, vanillu og smá anís.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, sólber, vanilla, kaffi og vindlar í löngu og þéttu eftirbragði.  Frábær kaup (2.599 kr í Fríhöfn, 3.599 kr sérpöntun í vínbúðunum). 92 stig.

Hvað segja hinir?

Robert Parker gefur þessum árgangi 89 stig.

Notendur Vivino gefa 3.9 í einkunn.

Vinir á Facebook