Umani Ronchi Villa Bianchi 2017

Verdicchio nefnist þrúga sem á uppruna sinn í héraðinu Marche á Ítalíu og er lítið sem ekkert ræktuð utan Ítalíu.  Auk Marche má finna þessa þrúgu í vínum frá Umbriu, Latium og Lazio.   Í Verdicchio dei Casettli di Jesi DOC þarf vínið að vera a.m.k. 85% Verdicchio en afgangurinn má vera Malvasia og Trebbiano. Vínin úr Verdicchio eru yfirleitt sýrurík, með léttum sítrónukeim og stundum er líka léttur möndlukeimur til staðar.

Vín dagsins

Ég hef að undanförnu verið að prófavínin frá Umani Ronchi og hef verið nokkuð hrifinn af rauðvínunum, en hvítvínin eru ekki mikið síðri.  Það er þó mikilvægt að hafa í huga að hvítvín úr Verdicchio mega ekki vera of köld þegar þau eru drukkin, því þá finnur maður ekki mikið bragð af þeim.  Kjörhitastig er líklega um 10-12 gráður og því best að taka það úr vínkælinum um hálftíma fyrir neyslu.  Sömuleiðis er ágætt að stinga því inn í ísskáp í rúman hálftíma fyrir neyslu.

Umani Ronchi Verdicchio dei Castelli di Jesi Classico Villa Bianchi 2017 er fölgult á lit, með angan af sítrónum, perum og sumarblómum.  Í munni er léttur keimur af sítrónuberki, melónum, perum og steinefnum. Mjög góð kaup (1.990 kr). 87 stig.

Hvað segja hinir?

Wine Enthusiast gefur 85 stig (Best Buy).

Notendur Vivino gefa 3,5 stjörnur.

Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur 4 stjörnur.

Vinir á Facebook