Lehmann stendur fyrir sínu

Það eru bráðum 60 ár siðan Peter Lehmann hóf víngerð, en á þessu ári er 40 ár síðan Lehmann gerði sitt eigið vín í fyrsta skipti.  Vínhús Peter Lehmann varð svo formlega til árið 1982 og hefur haldið því nafni þrátt fyrir að hafa nokkrum sinnum skipt um eigendur undanfarin ár.  Lehmann sjálfur hætti sjálfur árið 2002 og lést svo árið 2013.

Portrait-serían er hugsuð sem vín í þeim stíl sem Lehmann setti fyrst á markað undir eigin nafni og það er alveg óhætt að mæla með vínunum í þessari seríu.

Vín dagsins

Vín dagsins er Cabernet Sauvignon úr áðurnefndri Portrait-línu og hefur verið fáanlegt hérlendis í nokkur ár. Vínin hafa að jafnaði verið að fá um 88-89 stig hjá Wine Spectator og fleiri víntímaritum og yfirleitt verið nokkuð örugg kaup.

Peter Lehmann Cabernet Sauvignon Portrait 2013 er kirsuberjarautt á lit og ungt að sjá.   Í nefinu finnur maður plómur, anís, leður, fjólur og sólber.  Í munni eru mjúk tannín, hófleg sýra og fínn ávöxtur. Bláber, plómur, hrat, hiti, plómur og leður í góðu eftirbragðinu sem heldur sér ágætlega. Fer vel með léttari grillmat, fuglakjöti, svínakjöti og pottréttum. Góð kaup (2.599). 88 stig.

 

Vinir á Facebook