Glæsilegt Riojavín

Flestir lesendur síðunnar kannast líklega við vínin frá Muga, a.m.k. reserva-rauðvínið og sumir kannast jafnvel einnig við hvítvínið og rósavínið sem einnig fást í vínbúðunum.  Ég er þó ekki viss um að jafn margir hafi prófað Seleccion Especial-vínið, en það fæst aðeins í Fríhöfninni og er líklega í dýrari kantinum fyrir marga.  Þeir sem vilja komast yfir mjög gott Rioja-vín á viðráðanlegu verði ættu þó að láta freistast næst þegar þeir eru á ferðinni í Fríhöfninni, og þeir hinir sömu verða örugglega ekki sviknir af þessu víni.

Vín dagsins

Seleccion Especial er gert úr þrúgunum Tempranillo (70%), Garnacha (20%), 7 % Mazuelo (7%) og Graciano (3%).  Það fékk að liggja í 26 mánuði á tunnum og svo 12 mánuði í flösku áður en það fór í sölu.

Bodegas Muga Rioja Seleccion Especial 2006 er dökk-kirsuberjarautt á lit, djúpt með ágætan þroska.  Í nefinu eru kirsuber, lakkrís, vanilla, sveskjur og rúsinur. Í munni er nóg af tannínum og sýru, flottur ávöxtur. Súkkulaði, eik og kaffi í löngu og þéttu eftirbragðinu. Mjög góð kaup (4.599 kr í Fríhöfninni). 93 stig. Fer vel með góðri steik og góðum ostum.

Vinir á Facebook