Eitt lítið tár

Í fyrra fjallaði ég um nokkur vín frá víngerðinni Monte da Raposinha (fjall litla refsins?), sem staðsett er í Alentejo-héraði í Portúgal.  Flaggskip víngerðarinnar nefnist Furtiva Lagrima, eða fleiri tár.  Nafnið er sótt í óperu Donizetti, Ástardrykkinn (L’elisir d’amore), en þekktasta arían í óperunni er Una Furtiva Lagrima.

Vínið er blanda Syrah, Alicante Bouschet og Touriga Nacional, og af 2010-árgangnum voru búnar til 2785 flöskur eða rúmlega 464 kassar.  Vínið fékk að liggja í 18 mánuði í tunnum úr franskri eik áður en það var sett á flöskur.

Monte da Raposinha Furtiva Lagrima 2010 er dökkkirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska.  Í nefinu er þéttur og margslunginn ilmur af pipar, leðri, anís, vanillu, súkkulaði, kirsuberjum og eik.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og þéttur ávöxtur.  Leður, súkkulaði, kirsuber, vanilla og kryddaður eikarkeimur í löngu og þéttu eftirbragðinu.  Steinlá með nautinu. Frábært vín. 96 stig.

Fyrir þá sem vilja taka nautnina alla leið mæli ég með að hlusta á aríuna í flutningu Enrico Caruso

Vinir á Facebook