Síðsumarhvítt

Maður verður víst að viðurkenna að sumarið er senn á enda (ef það þá kom yfir höfuð í ár) og styttist í uppskerutíma á vínekrum á vesturhveli jarðar.  Sums staðar hófst uppskeran reyndar óvenjusnemma í ár, t.d. í Champagne og Alsace þar sem uppskera hófst sums staðar þann 22. ágúst.  Sums staðar er þó beðið lengur með að hefja uppskeruna, sbr. í Þýskalandi þar sem beðið er eftir að þrúgurnar fari aðeins að þorna upp, og það sama gildir um þrúgurnar sem notaðar eru í vín dagsins.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Jumilla-héraði á Spáni, sem er staðsett fyrir vestan Alicante.  Héraðið er þekktast fyrir rauðvínin sín sem gerð eru úr Monastrell-þrúgunni (85% alls vínviðar í Jumilla er Monastrell) en þaðan koma líka hvítvín, að mestu úr Airén, Macabeo og Chardonnay.  Vín dagsins er reyndar hálfgerður bastarður því það er að mestu gert úr Viura, ásamt Chardonnay og Viognier.  Þrúgurnar eru ekki tíndar fyrr en um miðjan október, þegar þær eru aðeins farnar að þorna og sykurmagnið aukist.  Vínið er því örlítið sætt, en það nær því þó ekki að kallast hálfsætt. Þess má til gamans geta að 2017 árgangurinn kemur frá Yecla-héraði.

Hammeken Cellars Pasas Uva Blanca 2016 er fölgræntt á lit, með angan af greipaldin, sítrónum, ferskjum, kiwi og smá hunangi.  Í munni er frískleg sýra, smá sæta, sítrónubörkur og melónur. Ágætt jafnvægi.  Prýðilegt matarvín. Góð kaup (1.999 kr). 86 stig

Vinir á Facebook