Argentískur Feneyingur

Vínin frá Masi hafa lengi verið vinsæl á Íslandi, líkt og fleiri vín frá Valpolicella-héraði á Ítalíu.  Appassimento-vínin njóta sífellt meiri vinsælda enda aðgengileg og matarvæn.  Þrúgurnar í þessum vínum – Corvina, Rondinella og Molinara – njóta sín best á Norður-Ítalíu og satt að segja hafa þær varla verið ræktaðar á nokkrum öðrum stað.  Þó eru nokkrir hektarar lands í Mendoza-héraði í Argentínu notaðir til ræktunar á Corvina-þrúgunni, og afraksturinn er að finna í víni dagsins. Masi hefur nú fært út kvíarnar og numið land í Argentínu, þar sem 140 hektarar er nýttir til ræktunar á ítölsku þrúgunum Corvina og Pinot Grigio, ásamt argentínsku þrúgunum Malbec og Torrontes.

Vín dagsins

Líkt og lesa má út úr nafni vínsins – Corbec – er það gert úr þrúgunum Corvina og Malbec.  Víngerðin er öll lífræn.

Masi Tupungato Corbec 2015 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt. Í nefinu finnur maður bláber, brómber, dökkt súkkulaði, fjólur, pipar, smá útihús og rúsínur.  Í munni eru ágæt tannín, frískleg sýra. Bláber, kryddkaka, fíkjur, dökkt súkkulaði, pipar og nýtt leður í góðu eftirbragðinu.  Mjög gott matarvín (nautakjöt, villibráð, þroskaðir ostar). Góð kaup (3.899 kr).

Vinir á Facebook