Stolt Cañas-fjölskyldunnar

Við vínskríbentar á Íslandi höfum keppst um að ausa lofi á vínin frá Luis Cañas í vetur.  Það var einkum Reserva 2011 sem kveikti í okkur enda fádæma gott vín þar á ferð.  Reserva 2012 var ekki alveg í sama gæðaflokki en Gran Reserva 2011 var ákaflega gott.  Nú er röðin komin að fjölskyldustoltinu – selección de la Familia, sem er gert úr þrúgunni Tempranillo en auk þess er smávegis af Cabernet Sauvignon (15%) bætt í vínið til að gefa því meiri fyllingu.  Vínið fékk að liggja í eikartunnum í 20 mánuði áður en það var sett á flöskur – helmingurinn á tunnum úr franskri eik en helmingurinn á tunnum úr amerískri eik.  Framleiðsla þessa árs fór á alls 125.250 flöskur.

Bodegas Luis Cañas Reserva Selección de la Familia 2012 er fallega kirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá en komið með örlítinn þroska.  Í nefinu finnur maður lakkrís, leður og sumarblóm, ásamt pipar og vott af vanillu.  Í munni eru þétt tannín, góð sýra og flottur ávöxtur.  Leður, plómur, ögn af lakkrís og eik í þéttu eftirbragðinu sem heldur sér vel.  Þetta er vín fyrir stórar steikur og fór vel með grilluðum nautakótilettum.  Mjög góð kaup (3.699 kr).  Á eftir að njóta sín vel næstu 7-10 árin. 92 stig.

Vinir á Facebook