Eðalvín frá Montepulciano

Það getur verið auðvelt að ruglast á vínum sem kallast Montepulciano d’Abruzzo og Vino Nobile di Montepulciano.  Fyrrnefnda vínið er gert úr þrúgunni Montepulciano og kemur frá Abruzzo-héraðinu við austurströnd Mið-Ítalíu.  Síðarnefnda vínið kemur hins vegar frá þorpinu Montepulciano í Toscana-héraði, sem er litlu norðar og liggur að vesturströnd Ítalíu.  Það er að mestu gert úr þrúgunni Sangiovese (sem í Montepulciano kallast Prugnolo gentile) og hlutur hennar í víninu verður að vera minnst 70%, en einnig er heimilt að nota aðrar þrúgur á borð við Canaiolo Nero, Colorino, Merlot og Mammolo.  Hugtakið Vino Nobile mun vera komið frá vínbónda að nafni Adamo Fanetti sem árið 1925 hóf framleiðslu á víni sem hann kallaði Nobile, en vínin frá Montepulciano flokkuðust þá sem „Vino rosso scelto di Montepulciano“ eða „valin rauðvín frá Montepulciano“.  Vínið sló í gegn og með tímanum fór hugtakið að festast í sessi.  Þann 1. júlí 1980 var hugtakið Vino Nobile di Montepulciano svo opinberlega tekið upp í Montepulciano.

Vín dagsins er einmitt Vino Nobile di Montepulciano, frá framleiðanda er nefnist Poliziano, sem hóf víngerð sína árið 1961. Vínið er gert úr þrúgunni Sangiovese (85%) ásamt Canaiolo, Colorino og Merlot. Hluti vínsins er látinn liggja í 1 ár í frönskum eikartunnum. Fyrri árgangar hafa að jafnaði verið að fá 89-92 stig hjá flestum víngagnrýnendum.

Poliziano Vino Nobile di Montepulciano 2015 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður kirsuber, fjólur og krydd.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og fínn ávöxtur.  Dökk kirsuber, súkkulaði, kaffi og smá anís í góðu eftirbragðinu.  Fór létt með vel kryddaða nautasteik og myndi eflaust sóma sér vel með sunnudagslærinu og jafnvel villibráð.  Góð kaup. 90 stig.

Vinir á Facebook