Annað lífrænt frá Chile

Víngerð Cono Sur í Chile hefur gengið ágætlega að búa til vín með lífrænni aðferð.  Í gær fjallaði ég um Pinot Noir og nú er komið að öðru rauðvíni, en vín dagsins er blanda Cabernet Sauvignon (45%), Carmenere (40%) og Syrah (15%).  Það fékk að liggja í 11 mánuði og þroskast – 70% í frönskum eikartunnum og 30% í stáltönkum. Vínið er ekki nema 12,5% að styrkleika sem er óvenjulágt að nútíma suðrænum rauðvínum að vera, en skilar sér í mýkra víni.

Vín dagins

Cono Sur Organic Cabernet Sauvignon Carmenere Syrah 2016 er fallega rúbínrautt á lit, unglegt með hóflega dýpt.  Í nefinu finnur maður plómur og kirsuber ásamt vott af súkkulaði, kaffi, kryddum og tóbaki.  Í munni eru góð tannín, hæfileg sýra og fínn ávöxtur, með keim af tóbaki, kaffi og eik í ágætu eftirbragðinu.  Hentar vel með grillmat, ljósu og rauðu kjöti ásamt pasta og ostum. Góð kaup (2.190). 88 stig.

Vinir á Facebook