Allt með kyrrum kjörum en þó tími fyrir hvítt

Það hefur lítið farið fyrir vínsmökkunum og vínskrifum undanfarna daga því ég hef verið önnum kafinn við að taka eldhúsið mitt í gegn.  Þegar þetta er skrifað er niðurbrotið nánast búið (bara eftir að færa einn ofn) og uppbyggingin að hefjast.  Nýja eldhúsið á að koma seinni part næstu viku þannig að það sér loks fyrir endann á þessu!
Vín dagsins kemur frá Kaliforníu, nánar tiltekið frá Montery County sem er við Kyrrahafsströndina fyrir sunnan San Francisco.  Montery hefur verið skilgreint sem sérstakt vínræktarsvæði (AVA) frá árinu 1984 og þar er vínviður ræktaður á rúmum 16.000 hektörum lands (u.þ.b. þriðjungur af stærð Bordeaux-héraðsins).  Vínhús Hess var stofnað árið 1986.  Eitt af áherslumálum vínhússins er vistvæn ræktun og m.a. eru geitur í vinnu við að halda illgresi í skefjum!
Hess Select Chardonnay 2015 er gullið á lit, með fína tauma.  Í nefinu finnur maður sítrus, eik og suðræna ávexti.  Í munni er vínið þurrt, ágæt sýra og fínt jafnvægi. Sítrus, epli og eik sem er nokkuð ráðandi í eftirbragðinu. Góð kaup (2.699). Vínið fær 88 stig frá mér.  Wine Spectator gaf því 90 stig og flokkaði það sem Best Values.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook