Þetta verðið þið að prófa!

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að halda áfram að lofsyngja spænsk vín um þessar mundir, en þetta vín hreinlega verðið þið að prófa!
Vínhús Luis Canas er staðsett í þeim hluta Rioja-héraðs sem kallas Alavesa, sem er hæsta vínræktarhéraðið í Rioja.  Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda hefur fjölskyldan stundað vínrækt í meira en 100 ár, en fjölskyldan stofnaði þó ekki eigið vínhús fyrr en árið 1970. Vínekrur fjölskyldunnar ná nú yfir meira en 400 hektara lands og þar er fylgt s.k. rational viticulture-stefnu – ekki beint lífræn ræktun ef ég skil þetta rétt en öll notkun á skordýraeitri og tilbúnum áburði er bönnuð.
Vín dagsins er reserva-vínið frá Luis Canas, gert úr þrúgunum Tempranillo (95%) og Graciano (5%).  Það hefur fengið að þroskast í 18 mánuði á tunnum úr amerískri og franskri eik, og hvílir svo í 2 ár í flöskunni áður en það fer í sölu. Kollegar mínir Steingrímur í Vínóteki og Þorri í Víngarðinun gáfu þessu víni 5 stjörnur og það fær sömu einkunn hjá mér!
Bodegas Luis Canas Rioja Reserva 2011 er kirsuberjarautt á lit og sýnir byrjandi þroska.  Í nefinu finur maður kirsuber, plómur, leður, tóbak, dökkt súkkulaði og krydd.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra, flottur ávöxtur og mjög gott jafnvægi. Kirsuber, pipar, lakkrís, eik og súkkulaði í löngu og þéttu eftirbragði. Algjört meistaraverk (2.699 kr).  Vín fyrir naut, lamb, villibráð og osta. 96 stig!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook