Áramótauppgjör Vínsíðunnar

Þá er enn eitt starfsár Vínsíðunnar á enda, hið 19. í röðinni, sem þýðir að á næsta ári fagnar Vínsíðan 20 ára afmæli!  Árið 2017 var alveg ágætt ár – alls voru birtar 106 umsagnir á síðunni, þar af 75 rauðvín og 29 hvítvín, en aðeins 1 rósavín og 1 freyðivín fékk umfjöllun á árinu.  Þeim vínum voru reyndar gerð góð skil á árinu 2016 en vonandi verða þau fyrirferðarmeiri á nýju ári.
Vínsíðan hefur útnefnt vín ársins allt frá árinu 2000, en reyndar voru útnefningarnar stopular fyrstu árin.  Frá árinu 2007 hafa útnefningarnar verið árlegar og verður engin breyting þar á um þessi áramót. Þau hafa verið æði misjöfn vínin sem hafa hlotið umsögn á þessu ári.  Lægsta einkunn var 83 stig (1 vín sem hlaut þá einkunn) en hæsta einkunnin var 96 stig (3 vín fengu 96 stig á árinu).  Vín ársins hefur þó ekki alltaf verið það vín sem hefur hlotið hæstu einkunn, heldur hefur verðið líka skipt miklu máli ásamt óskilgreindum vá-þætti (ég hef svo sem tautað yfir vá-þætti annarra gagnrýnenda og reyni því að halda þessum hluta í lágmarki).  Í stuttu máli sagt finnst mér að Vín ársins eigi að geta kallast bestu kaup ársins.  Dýru vínin þurfa því að vera þeim mun betri til að geta talist bestu kaup ársins, en ódýrari vínin þurfa að sama skapi ekki að vera jafn góð og þau sem hlutu hæstu einkunn, ef verðið er þeim mun betra.
Af þeim vínum sem hafa hlotið útnefninguna Vín ársins á Vínsíðunni hafa öll nema eitt verið rauðvín og kannski hefur það endurspeglað hlutfall rauðra og hvítra vína sem hafa fengið umsögn á Vínsíðunni.  Hlutfall hvítvína hefur þó líklega aldrei verið hærra en í ár eða um þriðjungur.  Við val á Víni ársins árið 2017 stendur valið þó á milli 2 hvítvína og 1 rauðvíns.  Fyrir nokkrum dögum fjallaði ég um Montes Alpha Sauvignon Blanc Special Cuvee 2016 og gaf því 92 stig í einkunn (fjórar og hálf stjarna), en það kostar 3.199 krónur í Vínbúðunum. Í nóvember fjallaði ég um Antinori Bramito Della Sala Chardonnay Umbria 2016 og gaf því 90 stig (fjórar stjörnur) sem er mjög gott fyrir hvítvín sem kostar 2.699 krónur. En það verður samt aftur rauðvín sem verður fyrir valinu í ár, og það hlaut sína umfjöllun um miðjan nóvember.
Columbia Crest Cabernet Sauvignon Columbia Valley Grand Estates 2014. Umsögnin sem vínið fékk var svohljóðandi: „…dökkrúbinrautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu eru kirsuber, jarðarber, leður, vanilla og plómur. Í munni góð tannin, hæfileg sýra, flottur ávöxtur, plómur og súkkulaði í þéttu og næstum rjómakenndu eftirbragði. Frábær kaup (2.599 kr). Hentar vel með nauti og lambi. 92 stig.“
Ég þakka lesendum Vínsíðunnar samfylgdina á árinu og óska öllum velfarnaðar á nýju ári.

Vinir á Facebook